Leiðin til fátæktar
Ríkisútvarpið hefur verið rödd þjóðarinnar í ríflega áttatíu ár. Í áttatíu ár hefur það tekið upp rödd okkar og útvarpað henni án þess að hugsa um hverjir sitja við völd; eða sett sérstaklega fyrir sig hvaða skoðanir bárust með röddunum. Rás eitt geymir þess vegna rödd þjóðarinnar, hún geymir viðtöl við löngu dáið fólk, pistla þess, hugleiðingar og sögur. Það er vegna Rásar eitt að við höfum aðgang að fortíð þjóðarinnar.
Rás eitt er því allt í senn: rödd okkar, andardráttur og minni. Hún geymir fortíðina, hún útvarpar henni, en er jafnframt stöðugt að taka upp samtíma sinn, og vista hann fyrir framtíðina. Þannig hefur Rás eitt í rúm áttatíu ár sameinað fortíð, nútíð og framtíð. Ef við klippum núna í ógæfu okkar og skammsýni á þennan þráð, verða afleiðingarnar alvarlegri en við gerum okkur grein fyrir. Við missum eitthvað mikilvægt. Og verðum fátæk þjóð.
Árin eftir hrun hafa verið dapurleg fyrir íslenska fjölmiðla, einkum fyrir dagblöðin sem hafa aldrei verið jafn rýr, undirmönnuð, og/eða í eigu harðra hagsmunaafla. Gagnrýnin umræða hefur liðið mjög fyrir það, sem eru alvarleg tíðindi fyrir lýðræðið; því minni og grynnri umræða, því veikara lýðræði.

Hin vanhelga þrenning?
Þrátt fyrir erfiða tíma eftir hrun höfum við haft gæfu til að halda úti fjölradda útvarpi sem hefur rúmað allar skoðanir, og boðið upp á óteljandi þætti um tónlist, þjóðfræði, heimspeki, garðrækt, viðtöl við fólk, þætti fyrir börn; fjölradda útvarp mannað starfsfólki með brennandi metnað. Eru þeim tímar virkilega liðnir?
Íslands óhamingju verður allt að vopni; ríkisstjórnarflokkarnir virðast alls ekki skilja ábyrgð okkar hér og nú gagnvart íslenskri menningu – og það sama gildir því miður um sjálfan útvarpsstjórann, Pál Magnússon. Þessi þrenning, flokkarnir tveir og Páll, skilja ekki, eða loka þá augunum fyrir því, að ef við sinnum ekki íslenskri menningu af fullum þunga, þá dofnar hún með ófyrirséðum afleiðingum fyrir framtíðina. Íslensk menning er sterk, en hún lifir samt ekki nema henni sé sinnt af alúð og krafti. Mikill niðurskurður og gróf aðför gagnvart Ríkisútvarpinu eru ekkert annað en árás. Rás eitt hefur í áttatíu ár verið hryggjarstykki í íslenskri menningu. Árás á Rás eitt er því einfaldlega árás á íslenska menningu.