Skoðun

Gamaldags skotgrafarpólitík bæjarstjóra Hafnarfjarðar!

Bæjarstjóri Hafnarfjarðar, Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir, birti grein hér í blaðinu sl. fimmtudag undir yfirskriftinni „Enn ein tilraun til einkavæðingar“.Tilgangur skrifa hennar er að gera grein fyrir afstöðu hennar sem fulltrúi VG og félaga hennar í Samfylkingunni til tillögu sem fulltrúar Sjálfstæðisflokksins fluttu á síðasta bæjarstjórnarfundi þess efnis að gerð verði úttekt á ávinningi af áframhaldandi eignarhlut Hafnarfjarðarbæjar í HS Veitum annars vegar og hagkvæmni af hugsanlegri sölu hins vegar.

Skrif bæjarstjórans eru lýsandi fyrir þann málflutning sem hún og félagar hennar í bæjarstjórninni nota gjarnan á bæjarstjórnarfundum þegar málefnaleg rök skortir. Þá er gripið til gamaldags skotgrafarpólitíkur sem því miður þjónar ákaflega litlum tilgangi og skilar nákvæmlega engum árangri.

Sjálfstæðisflokkur vill verðmat

Varðandi eignarhlut Hafnfirðinga í HS Veitum sem er til umfjöllunar er kannski áhugavert fyrir bæjarbúa að fá upplýsingar um hvers virði hann er í dag en miðað við söluverð á hlut Suðurnesjamanna nú nýlega mun láta nærri að hann sé um 1,5 milljarðar króna. Hugsanlega byðist Hafnfirðingum sama verð ef kannað væri og það gæti verið skynsamlegt að taka það til skoðunar.

Að mati fulltrúa Sjálfstæðisflokksins er eðlilegt á þessu stigi að kanna arðsemi af því að eiga hlutinn og ávinning af því að selja hann og létta á skuldabyrði bæjarins sem er fjórða skuldsettasta sveitarfélag landsins með skuldahlutfall yfir 250%, en skylt er að ná þessu hlutfalli niður fyrir 150% innan 10 ára samkvæmt nýjum sveitarstjórnarlögum.

Betri lánakjör

Með lækkun skulda fást betri lánakjör sem enn aftur flýta fyrir niðurgreiðslu lána. Mikilvægt er að vinna markvisst að þessu markmiði því eins og allir vita er dýrt að skulda. Hafnarfjörður er skuldsett sveitarfélag sem þó hefur alla burði til að vinna sig út úr fjárhagslegum þrengingum ef rétt er staðið að málum og bæjarstjórinn Guðrún Ágústa sem „nota bene“ er starfsmaður bæjarbúa ætti að fagna góðum tillögum sem fram eru bornar með hagsmuni sveitarfélagsins í huga í stað þess að snúa út úr málflutningi fulltrúa Sjálfstæðisflokksins.

Villandi málflutningur

Fullyrðingar bæjarstjóra um tilraunir til einkavæðingar eru prívatskoðanir bæjarstjóra sem veit fullvel að bundið er í lög að meirihlutaeign í HS Veitum skuli vera á höndum sveitarfélaga.






Skoðun

Sjá meira


×