Innlent

Áhættuhegðun að baki mörgum banaslysum í umferðinni

Þorgils Jónsson skrifar
Eftir slysið í fyrrinótt þar sem karlmaður á miðjum aldri lést eftir bílveltu í Reykjavík, hafa fjórtán látist í umferðinni hér á landi, í þrettán slysum, það sem af er ári. Það er talsvert meira en í fyrra þegar níu létust, og það mesta sem gerst hefur frá árinu 2009 þegar sautján létust, en vel undir meðaltali áranna 2003 til 2009 þegar tuttugu manns létust að jafnaði á ári.

Ágúst Mogensen, rannsóknarstjóri hjá Rannsóknarnefnd samgönguslysa, segir að flest slysin hafi orðið við útafakstur eða árekstur þó önnur tilvik hafi einnig orðið. 

„Rannsóknarnefnd samgönguslysa hefur ekki lokið greiningu slysanna en þó hefur komið fram við fyrstu yfirferð gagna að bílbeltaleysi, hraðakstur og ölvun eru þættir sem koma við sögu. Rannsóknarnefndin mun leggja áherslu á að greina orsakir slysanna á fyrri hluta næsta árs og gera tillögur í öryggisátt sem vonandi verða til þess að fækka banaslysum í umferðinni enn frekar.“

Einar Magnús Magnússon, kynningarstjóri Samgöngustofu, segir að tilfellin séu sem betur fer fá á hverju ári og þess vegna geti tölfræðin hlaupið mikið til milli ára með einu slysi eða tveimur, en þó megi sjá merki um ákveðna óheillaþróun milli ára. „Við fögnuðum því í fyrra að það varð ekkert banaslys af völdum ölvunaraksturs það ár, en nú í ár höfum við hins vegar séð ölvunarakstur sem orsakavald banaslysa og alvarlegra slysa.“

Einar segir að í mörgum þeirra slysa sem orðið hafa í ár hafi hrein og klár áhættuhegðun valdið slysum. „Í langflestum tilfellum má koma í veg fyrir slysin. Það er fyrst og fremst undir okkur ökumönnum komið.“

Einar segir að Samgöngustofa muni á næstunni hrinda af stað átaki gegn ölvunarakstri í samstarfi við Vínbúðirnar. 

„Við vonum svo sannarlega að það veki fólk til umhugsunar um þá ranghugsun sem margir eru haldnir að það sé í lagi að keyra bíl eftir að hafa fengið sér í glas.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×