Skoðun

Björn Jón – fyrir miðbæinn

Svava Eyjólfsdóttir skrifar
Við rekstur fyrirtækis skiptir höfuðmáli að hafa á að skipa góðu starfsfólki. Undanfarin þrettán ár hef ég unnið með Birni Jóni Bragasyni að verslunarrekstri í miðbæ Reykjavíkur og vart get ég hugsað mér betri starfskraft og betri samstarfsmann.

Ég og mín fjölskylda höfum rekið fyrirtæki okkar við Laugaveginn í næstum heila öld og við höfum fylgst með því hvernig miðbænum hefur hrakað hin síðari ár. Þar koma ekki hvað síst til ýmsar aðgerðir borgaryfirvalda, svo sem hækkun bílastæðagjalda, höft á uppbyggingu verslunarhúsnæðis og svo mætti lengi telja.

Við rótgrónir kaupmenn og fasteignaeigendur við Laugaveginn ákváðum að fylkja liði fyrir fáeinum misserum til að svara þessum linnulausu árásum borgaryfirvalda. Björn Jón tók að sér að vera framkvæmdastjóri okkar og hefur hann rækt þær skyldur af stakri alúð og mikilli umhyggju fyrir miðbænum.

Það hefur verið aðdáunarvert að fylgjast með Birni Jóni í störfum sínum fyrir miðbæinn og hvernig hann hefur lagt sig fram um að setja sig rækilega inn í margvísleg mál er honum tengjast og um leið gerst öflugur málsvari verslunar í miðbænum.

Ég hvet alla sjálfstæðismenn í Reykjavík til að sameinast um Björn Jón Bragason og greiða honum atkvæði sitt í prófkjörinu á laugardaginn. Hann skilur betur en aðrir þarfir miðbæjarins og hann verður öflugur liðsmaður í borgarstjórn.






Skoðun

Sjá meira


×