Skoðun

Kæri Jón

Karl Pétur Jónsson skrifar
Kæri borgarstjóri, Jón Gnarr,

 

Eins og mér finnst margt ágætt sem þú segir og gerir þá mislíkaði mér ummæli þín um Seltjarnarnes í viðtali við Kjarnann sem birtist í morgun.

 

Ummælin eru þessi:

 

„Seltjarnes er fyrir Reykjavík eins og þú eigir íbúð og ríki frændi þinn eigi íbúð við hliðina á þér þar sem er innangengt í þína. Hann hefur engar skyldur gagnvart þinni íbúð en getur gengið inn í hana á skítugum skónum og étið úr ísskápnum þegar hann vill vegna þess að hann keypti íbúðina með þessum réttindum. að sama skapi keyptir þú þína íbúð með þessum vankanti. Þetta setur þig og frænda þinn í sérkennilega stöðu.

 

Það er ekkert útigangsfólk á Seltjarnarnesi. Þar er mjög lítill félagslegur vandi, lág glæpatíðni og mikil nálægð við náttúru. Þetta eru lífsgæði sem allir eiga að fá að njóta, ekki bara þeir sem hafa efni á að kaupa sér þau. Það er líka ekkert leikhús á Seltjarnarnesi. Það er engin Sinfóníuhljómsveit Seltjarnarness. Það er hins vegar til staðar í Reykjavík og er, ásamt alls konar annarri þjónustu, niðurgreitt af borginni. Það er því mjög ósanngjarnt að ríkt fólk nýti sér þjónustuna án þess að borga fyrir hana.“

 

Nú vona ég að þessi ummæli séu sett fram í hálfkæringi eða gríni, en ef svo er ekki er þetta leiðinleg og óþörf árás á 4300 íbúa Seltjarnarness, sem á hverjum einasta degi taka fagnandi á móti þúsundum Reykvíkinga sem sækja í náttúru, útivist, golf, sund, verslanir, bókasafn, líkamsrækt og æfa íþróttir með Gróttu.

 

Ég hef ekki heyrt Seltirninga amast við hinu nána og friðsæla sambýli sem við eigum við Reykjavík. Ekki dettur mér í hug að gera athugasemdir við hundruð bíla Reykvíkinga sem bruna daglega fram hjá húsinu mínu á leið út í Gróttu til að njóta náttúrunnar, eða til þess að fara í golf. Alltaf finnst mér jafn gaman að hitta vini mína reykvíska sem bjóða upp á gott spjall í heitu pottunum í Sundlaug Seltjarnarness. Heilsugæslan á Seltjarnarnesi veitir íbúum Reykjavíkur þjónustu, fjöldi barna stundar tónlistarnám við Tónlistarskóla Seltjarnarness auk þess sem við njótum krafta margra þeirra í lúðrasveitinni okkar. Og hvar fagnar Knattspyrnufélag Reykjavíkur meistaratitlum sínum? Á Eiðistorgi. Við fögnum því.  

 

Þá finnst mér rétt að borgarstjórinn í Reykjavík átti sig á því að Seltirningar líkt og aðrir landsmenn leggja Sinfóníuhljómsveit Íslands, Þjóðleikhúsinu, Þjóðminjasafninu og öðrum menningarstofnunum í Reykjavík til fjármagn með sköttunum sínum.

 

Við höfum því miður ekki burði til að reka leikhús eins og Reykjavík gerir með myndarbrag, en ég held að allir Seltirningar taki undir með mér í því, að við gerum okkar besta til að leggja okkar að mörkum eins og kostur er í samfélagi sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Í ummælum þínum kemur fram að þér finnist Seltirningar ekki rækja skyldur sínar gagnvart sínum stóra nágranna. Gagnlegt væri að fá nánari skýringar frá þér með hvaða hætti þú telur að við Seltirningar gætum gert betur í samskiptum við höfuðborgina. Hugsanlega komumst við í framhaldinu á stað þar sem óþarft er að líkja Seltjarnarnesi við ríkan frænda sem borðar úr ísskáp fátæka frænda (Reykjavík) og þú getur endanlega kastað fyrir róða hugmyndum um tollahlið við bæjarmörkin.

 

Bestu kveðjur af Nesinu,

 

Karl Pétur Jónsson

Íbúi á Seltjarnarnesi




Skoðun

Sjá meira


×