Viðskipti innlent

Íslensk lagasetning fær uppáskrift ESB

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Á meðan allt lék í lyndi. Haustið 2008 þegar bankarnir voru að falla gripu tveir franskir fjárfestar til þess ráðs að láta kyrrsetja eigur Landsbankans þar í landi. Um þá kyrrsetningu er enn tekist fyrir hæstarétti þar.
Á meðan allt lék í lyndi. Haustið 2008 þegar bankarnir voru að falla gripu tveir franskir fjárfestar til þess ráðs að láta kyrrsetja eigur Landsbankans þar í landi. Um þá kyrrsetningu er enn tekist fyrir hæstarétti þar. Fréttablaðið/E.Ól.
Fjárfestar í útlöndum þurfa að sæta íslenskum lögum sem sett voru vegna falls bankanna. Evrópudómstóllinn kvað upp dóm sinn um þetta í gær.

Hæstiréttur í Frakklandi skaut til dómstólsins álitamáli í tengslum við mál slitastjórnar LBI (gamla Landsbankans) á hendur franska fjárfestingarfyrirtækinu Kepler Capital Markets og frönskum kröfuhafa.

Málareksturinn í Frakklandi er þannig til kominn að tveir kröfuhafar LBI ytra fengu kyrrsettar eignir bankans þar í landi eftir fall bankans í október 2008. LBI höfðaði síðan mál ytra til þess að fá kyrrsetningunni hnekkt, enda ættu allir kröfuhafar að sitja við sama borð.

„Eignirnar sem um ræðir nema nokkrum milljónum evra,“ segir Halldór Helgi Backman hæstaréttarlögmaður, sem sæti á í slitastjórn LBI. Með dómnum nú sjái fyrir endann á málinu og milljónirnar sem festar voru ytra gætu farið að losna.

Halldór segir Evrópudómstólinn í raun hafa tekið af vafa um hvort íslensk lagasetning frá vordögum 2009 stæðist, um að efnisreglur slitameðferðar væru í meginatriðum látnar gilda um fjármálafyrirtæki sem þá voru í greiðslustöðvun.

Halldór Helgi Backman
„Þetta tímabundna ástand var við lýði fram að annarri lagabreytingu í nóvember 2010 sem gerði að verkum að héraðsdómur gat úrskurðað um upphaf almennrar slitameðferðar.“ Tekist hafi verið á um hvort sú ráðstöfun íslenskra stjórnvalda, að færa reglur slitameðferðar inn í greiðslustöðvun, hefði verið lögmæt. 

„Okkur til fagnaðar og ánægju þá fellst Evrópudómstóllinn á það sem við höfum haldið fram alveg frá upphafi, að íslenski löggjafinn hafi heimild, svo fremi sem grundvallarreglur séu virtar, til þess að breyta leikreglum greiðslustöðvunarinnar.“ 

Staðfest sé að á tímabilinu frá apríl 2009 til nóvember 2010 hafi verið í gildi fullkomlega lögleg greiðslustöðvun, jafnvel þó að efnisreglur slitameðferðar giltu um hana.

Stefán Már Stefánsson
Stefán Már Stefánsson, prófessor við lagadeild Háskóla Íslands, segir dóm Evrópudómstólsins fyrst og fremst staðfestingu á því að alveg rétt hafi verið staðið að innleiðingu ákvæða Evrópusambandsins um slitameðferð í íslenskri lagasetningu. 

„Íslensk lög fá gæðastimpil. Reynt hefur verið að halda því fram að löggjafinn hafi ákveðið upphaf slita, í staðinn fyrir að dómstóll gerði það, líkt og Evróputilskipunin kveði á um og þetta væri ólögleg aðferð,“ segir Stefán. Með þetta hafi kröfuhafar verið gerðir afturreka.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×