Innlent

Sérsveitin kölluð til Sauðárkróks: Maðurinn hótaði að beita skotvopni

Fanney Birna Jónsdóttir skrifar
„Maðurinn hótaði að beita skotvopni og við fengum aðstoð sérsveitar ríkislögreglustjóra," segir Stefán Vagn Stefánsson, yfirvarðstjóri lögreglunnar á Sauðárkróki.

Maðurinn hringdi rétt fyrir eitt og var lögreglan komin með svokallaðan sjónpóst á húsið örstuttu eftir það.

„Við reyndum að ræða við hann og fá hann til að gefast upp. Það gekk ekki en eftir mikið þref hleypti hann okkur inn og við handtókum hann," segir Stefán.

Maðurinn var handtekinn klukkan 15.40.

Stefán Vagn getur ekki tjáð sig um það að svo stöddu um hvort skotvopn hafi fundist á heimili mannsins.

Maðurinn á við geðræn vandamál að stríða og hefur áður komist í kast við lögin.

Hafsteinn Hannesson, íbúi við Hásæti, segir að lögreglan hafi fært manninn út úr húsinu og 4-5 lögreglubílar hafi verið á staðnum.

„Þeir fóru að húsinu á tveimur bílum og voru svolitla stund fyrir utan og fóru síðan inn og komu svo með hann út í bíl, þeir eru allir farnir hérna og þetta er allt orðið rólegt núna,“ segir Hafsteinn.

„Hann kom hérna í haust í sláturtíðinni og það hefur ekkert ónæði verið af honum. Ég frétti það frá lögreglunni hérna að hann hefði sjálfur hringt í þá og sagt vera með byssu,“ segir Hafsteinn.

Stefán Vagn segir að lögreglan hafi náð sambandi við manninn mjög fljótlega en hann hafi meðal annars hringt beint í lögregluna á Sauðárkróki. Fjarskiptamiðstöð ríkislögreglustjóra hafi séð um samskipti við manninn að stóru leyti. Þeir hafi verið í sambandi við hann allan tímann með hléum.

Maðurinn var búinn að hóta að beita skotvopninu, meðal annars gegn lögreglunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×