Handbolti

Fínt veganesti Atletico

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Liðsmenn Atletico gátu fagnað í dag.
Liðsmenn Atletico gátu fagnað í dag. Nordicphotos/Getty
Atletico Madrid vann fimm marka sigur á Barcelona í fyrri leik liðanna í átta liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í handknattleik í dag 25-20.

Heimamenn höfðu forystu í hálfleik 11-10 sem voru vel studdir af ellefu þúsund áhorfendum í Madrid. Leikurinn var hin mesta skemmtun og hart barist.

Javier Hombrados var magnaður í marki heimamanna og varði tvö vítaköst seint í leiknum. Annað á lokasekúndunni. Kappinn sýndi gamalkunna takta en hann er nýkominn aftur á völlinn eftir meiðsli á hásin.

Joan Canellas og Kiril Lazarov skoruðu mest heimamanna eða sex mörk en Lazarov meiddist í leiknum. Sergej Rutenka skoraði flest mörk gestanna eða sex. Liðin eigast við í síðari leiknum í Barcelona um næstu helgi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×