
"Ég veit satt að segja ekki af hverju við erum svona fáar. Kannski hefur þessi heimur óvart orðið að einhverjum strákakúltúr og karlmannafag. Það sjá margir forritara fyrir sér sem einhverja sveitta lúða. En þetta er alls ekki þannig," segir hún.
Elísabet er ekki enn farin að gera upp við sig hvað hún ætlar að fást við eftir námið. " Ég ætla að klára grunnnámið sem er þrjú ár og sjá svo hvaða greinar innan fagsins heilla mig mest."
Hún útskrifaðist af náttúrufræðibraut MH og segist hafa tekið aukakúrsa í stærðfræði. Það sé þó ekki nauðsynlegt til að ganga vel í tölvunarstærðfræðinni í HR enda sé farið í þessi atriði á fyrsta ári. Tölvur eru áhugamál hjá Elísabetu og hafa verið lengi.
"Ég komst í einhverja html-kóða leiðbeiningabók þegar ég var 12 ára og las hana spjaldanna á milli þannig að ef til vill lá þetta alltaf beint við hjá mér. Annars hef ég áhuga á ýmsu öðru, ég er til dæmis mikill tónlistarunnandi og elska að fara á tónlistarhátíðir. Ég les mikið af bókum og finnst gaman að fara í ræktina. Svo hef ég líka sinnt fyrirsætustörfum."
Forritunarkeppni framhaldsskólanna verður í Háskólanum í Reykjavík þann 16. mars næstkomandi en þar keppa lið frá framhaldsskólum í þremur mismunandi deildum eftir erfiðleikastigi. Elísabet er ein af fleiri nemendum við tölvunarfræðideild HR sem koma til með að dæma í keppninni.