Skoðun

Tæfur og tígulgosar

María Hjálmtýsdóttir skrifar
Þegar ég var tæplega unglingur komst ég í dönsk klámblöð sem mér fannst hrikalega spennandi að skoða í laumi vegna þess að ég vissi að þetta væri bannað. Snemma á unglingsárunum sá ég meira að segja alvöru klámmyndir sem við komumst í eftir mikið laumuspil. Þær voru illa leiknar og hinn svokallaði „söguþráður“ var í besta falli hörmulegur, enda aukaatriði.

Áhugi unglinga á kynlífi er hvorki nýr af nálinni né skrýtinn. Krakkar í dag eru ekkert verri en áður fyrr, þeir eru jafnvel heilbrigðari á margan hátt en við fyrirrennarar þeirra. Sú grundvallarbreyting sem hefur orðið á tilveru unglinga er internetvæðingin sem er nú orðin svo gríðarleg að sumir fá áfall þurfi þeir að fara á klósettið án þess að vera nettengdir.

Klámbransinn er einn þeirra hluta sem hefur stökkbreyst með tilkomu internetsins.

Einu sinni lásum við í Tígulgosanum um hana Melbu sem stundi við þegar hún strauk mjólkurpóstinum sem var agndofa yfir nautnalegum mjaðmahreyfingum hennar. Í dag þarftu ekki að klikka langt yfir skammt til þess að finna síður sem bjóðast til að sýna þér hvernig tánings-tíkurnar fá það sem þær eiga skilið, hvernig fylla skal í öll göt á druslunum til að kenna þeim auðmýkt og hvernig alvöru grjóthörð karlmenni gefa þessum dræsum það sem þær virkilega þurfa á að halda. Og nú er ég frekar að draga úr en ýkja.

Hinar óhugnanlega einfölduðu staðalmyndir þar sem karlinn er ískaldur og grjótharður drottnari og konurnar kynþokkafullt skraut eða leiktæki eru svo endurteknar út í hið óendanlega í tónlistarmyndböndum, tölvuleikjum og fleiru. Mörgum krökkum líður illa en þora oft ekki að tala um hvernig neysla kláms hefur áhrif á sjálfsmynd þeirra, kynhegðun og náin sambönd. Krakkarnir okkar, og þá sérstaklega strákarnir, neyta margir hverjir kláms reglulega og hafa séð grimmilegustu hluti. Spyrjið þau bara.

Meðal annars þess vegna er svo mikilvægt að opna fyrir þessa umræðu og halda henni gangandi. Eitt besta vopnið í baráttunni fyrir kynheilbrigði komandi kynslóða er jafnréttisfræðsla og aftur jafnréttisfræðsla.




Skoðun

Sjá meira


×