Innlent

Eldri borgarar í takt við tímann með Wii

María Lilja Þrastardóttir skrifar
Tæknin gerir fólki kleift að halda sambandi við ættingja og vini.
Tæknin gerir fólki kleift að halda sambandi við ættingja og vini.
Öldrunarheimili Akureyrar (ÖA) hafa keypt þráðlaust net og spjaldtölvur fyrir vistmenn. Nýjungin mælist vel fyrir jafnt hjá vistmönnum sem starfsfólki.

„Þetta er einn angi af velferðartækni sem ekki hefur verið nýttur áður. Tækni til að gera öldruðum lífið bærilegra,“ segir Halldór S. Guðmundsson, framkvæmdastjóri ÖA. Hann segir að mikil ánægja ríki á meðal íbúa með framtakið.

„Við viljum efla samskipti við umheiminn og hjálpa fólki við að halda sambandi við ástvini. Svo er þetta líka svo gefandi á hug og hönd,“ segir Halldór.

Dagvistunin í Hlíð býður auk spjaldtölvanna upp á leikjatölvuna Wii. Friðný Sigurðardóttir, þjónustustjóri í Hlíð, segir það einkar skemmtilega viðbót. „Hlátrasköllin óma hér um allt hús frá því að tölvurnar komu. Hér er fólk að spila golf og dansa eða jafnvel ferðast um fjarlæga staði. Svo sameinar þetta starfsfólkið og íbúa. Upphafið lofar því mjög góðu,“ segir Friðný og bætir við að oft sé þessi hópur vanmetinn hvað tæknina varðar.

„Ég heyrði á tal tveggja kvenna hér um daginn. Þá var önnur þeirra að kenna hinni á Google. Þar gæti hún fengið upplýsingar um sjúkdóminn sinn og fleira. Svo þú sérð að þetta nýtist þeim á svo margan hátt.“

Þegar hafa tvö heimili af fimm verið netvædd og til stendur að hin fylgi í kjölfarið á komandi vikum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×