Innlent

Fágæt hvalategund á Skjálfandaflóa

Heimir Már Pétursson skrifar
mynd/Marianne Helene Rasmussen
Vísindamenn ætla að freista þess í kvöld að ná sýni úr hval á Skjálfandaflóa sem talinn er vera blendingur steypireyðar og langreiðar. Ef það reynist satt yrði um að ræða eitt af innan við tuttugu blendingum af þessu tagi í heiminum.

Vísindamenn ætla í kvöld að reyna að ná sýni úr hvalnum úti á Skjálfandaflóa en hann er nú hér öðru sinni því fyrst sást til hans á sömu slóðum árið 2011. Marianne Helene Rasmussen forstöðumaður Hvalarannsóknarstöðvar Háskóla Íslands á Húsavík segir þetta mjög spennandi verkefni. Starfsmaður Hafrannsóknarstofnunar muni í kvöld reyna að skjóta litlum skutli með lásaboga í hvalinn til að ná litlu sýni úr honum til greiningar.

 

Marianne segir ekki fara á milli mála að þetta sé sama dýrið og var á Skjálfandaflóa fyrir tveimur árum. "Okkur tókst ekki að ná sýni úr dýrinu þegar það var hér árið 2011 en vonandi tekst það í kvöld," segir Marianne Helene.

Það sem bendir til að um blending sé að ræða sé að bakugginn sé eins og á langreið en húðliturinn eins og á steypireyð. Marianne segir þessa blöndu mjög sjaldgæfa. "Ég er ekki viss um hvað mörg eintök eru til af blendingi sem þessum í heiminum, en þau eru örugglega færri en tuttugu," segir hún.

Sjaldgæft sé í dýraríkinu að ólíkar tegundir makist og því væri gaman að ná sýni úr dýrinu. Hvalurinn sé nú í hópi þriggja steypireiða og árið 2011 hafi hann einnig verið í fylgd steypireyðar. "Við erum ekki búin að fara í gegnum myndasafnið okkar til að ganga úr skugga um að hvalurinn sé í fylgd sömu steypireiðanna og árið 2011. Við eigum myndir af 105 steypireyðum en engin steypireyð lítur nákvæmlega eins út og önnur og því ættum við að geta komist að því hvort blendingurinn er í fylgd með sömu hvölunum og síðast eða ekki, þegar við erum búin að fara í gegnum myndasafnið," segir Marianne Helene Rasmussen forstöðumaður Hvalarannsóknarstöðvar Háskóla Íslands á Húsavík.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×