Erlent

Grímurnar birtast á götunum í Japan

Fólk á ferð Sumir segja engu líkara en annar hver maður gangi um með grímu.	fréttablaðið/AP
Fólk á ferð Sumir segja engu líkara en annar hver maður gangi um með grímu. fréttablaðið/AP
Japanar eru líklega duglegri en flestar aðrar þjóðir við að setja upp grímur. Algengast er þetta á vorin þegar frjókornin fara á kreik. En Japanar nota líka grímur til að verjast smiti. Og mengun sem þeir segja einkum koma frá Kína.

„Það er engu líkara en annar hver maður sem fer út fyrir hússins dyr gangi um með grímu þessa dagana,“ segir Masahiko Haneda, kaupsýslumaður í höfuðborginni Tókýó.

Flestir reyndar setja upp grímur til að verjast frjókornum vegna ofnæmis, og þetta árið er ástandið óvenju slæmt. Frjókornamælingar sýna að í andrúmsloftinu eru fimm sinnum fleiri frjókorn nú en var á sama tíma í fyrra. Ástæðan er sögð vera sú að síðasta sumar var óvenju heitt, auk þess sem óvænt hitabylgja hefur gert vart við sig nú í þessum mánuði. Þessi mikli hiti núna gerir það að verkum að bæði sedrusviður og hinn japanski hinoki-grátviður losa samtímis frjókorn út í andrúmsloftið.

Með árunum hefur grímutískan breyst. Þær eru ekki lengur eingöngu hvítar og skurðstofulegar, heldur í öllum regnbogans litum og hannaðar eftir sveiflukenndum kröfum tískunnar. Sumar eru með ilmefnum.

Grímuframleiðendur eru farnir að velta jafnvirði 34 milljarða króna á ári hverju. Öflugasta fyrirtækið í bransanum, Kowa Co., segist ætla að fimmfalda framleiðsluna þetta árið.

Grímur sjást reyndar á fólki í Japan allt árið. Margir setja þær á sig um leið og þeir fá kvef. Þannig komast þeir hjá því að hósta eða hnerra framan í annað fólk, til dæmis í þrengslunum í járnbrautarlestum eða á vinnustöðum, þar sem oft er einnig þröng á þingi.

Þá setur fullkomlega heilbrigt fólk iðulega upp grímuna til að forðast smit frá þeim sem hnerra og hósta bullandi kvefaðir en grímulausir á almannafæri.

Grímur eru ódýrar í Japan og kannski þess vegna svona vinsælar. Þær þjóna líka mjög skýrum tilgangi og virðast virka vel.

„Þær eru ódýrar og þær virka. Það virðist henta mjög vel hugsunarhætti margra Japana,“ segir Shigeharu Fujeda, ofnæmisfræðingur við Háskólann í Fukui.

gudsteinn@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×