Viðskipti innlent

Síldveiðiskip skemma ítrekað bláskeljarækt

Lovísa Eiríksdóttir skrifar
Síldveiðiskip soga upp bláskeljar við veiðar sínar sem veldur bláskeljabónda miklu tjóni.
Síldveiðiskip soga upp bláskeljar við veiðar sínar sem veldur bláskeljabónda miklu tjóni.
Grunur leikur á að stórir síldveiðibátar leggi á mið þar sem bláskeljaræktun fer fram með þeim afleiðingum að ræktunin eyðileggst. Símon Már Sturluson, eigandi fyrirtækisins Íslensk bláskel og sjávargróður ehf. í Stykkishólmi, fullyrðir að síldveiðibátarnir hafi valdið tugmilljóna tjóni.

„Þeir sigla inn á svæði sem okkur hefur verið úthlutað og kasta yfir burðarlínuna sem heldur skelinni fastri. Þannig rífa þeir bláskelina af línunum og hún fellur til botns og týnist. Ég er búinn að leita og leita að þeim. Krossfiskarnir eru líklega búnir að éta þær. Bátarnir eyðilögðu 30 tonna ræktun í fyrrahaust sem hefur valdið um 40 milljón króna tjóni fyrir okkur,“ segir Símon og bendir á að þetta sé í þriðja skipti sem bátarnir soga upp skelina.

„Þetta er svakalegt áfall fyrir okkur og með ólíkindum hvernig þessir skipstjórar haga sér,“ bætir Símon við.

Þó svo að Símoni hafi verið úthlutað svæði til ræktunar á bláskel stendur hvergi í lögum að öðrum skipum sé bannaður aðgangur að svæðinu. Hins vegar gerast skipstjórar brotlegir ef skipin valda tjóni.

Símon segir að málið sé í rannsókn hjá lögreglu, en ekki sé búið að yfirheyra skipstjóra síldarbátanna. „Þeir gefa sér bara ekki tíma til að koma í yfirheyrslur og komast upp með það. Ég sá þá sigla yfir miðinn og það ætti að vera nóg,“ segir Símon og bætir við að hann sé búinn að fá það staðfest hjá Landhelgisgæslunni.

Kristján Berg, eigandi fiskbúðarinnar Fiskikóngurinn, segir að hann sakni þess að geta boðið viðskiptavinum upp á skelina. „Við erum algjörlega uppiskroppa með bláskel í búðinni vegna þessa tjóns,“ segir Kristján.

Símon hefur þurft að segja upp fimm starfsmönnum vegna tjónsins, þar sem fyrirtækið hefur engar skeljar til vinnslu lengur. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×