Skoðun

Ágæti alþingismaður

Herdís Halldórsdóttir og Maggý Magnúsdóttir og Þórunn Halldórsdóttir skrifa
Við viljum vekja athygli þína á því að jafnlaunaátak ríkisstjórnarinnar sem samþykkt var í janúar 2013 nær ekki til Reykjalundar og hefur því frekar aukið á ójöfnuð innan heilbrigðistétta en jöfnuð.

Staðan er sú að Landspítali, Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri, Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins, Heilbrigðisstofnun Vesturlands, Heilbrigðisstofnun Vestfjarða, Heilbrigðisstofnun Þingeyinga, Heilbrigðisstofnun Austurlands og Heilbrigðisstofnun Suðurlands hafa fengið fjármagn til að hækka laun starfmanna sinna í skilgreindum kvennastéttum í gegnum stofnanasamninga í þeim tilgangi að jafna launamun karla og kvenna.

Í grein 7.5 í þjónustusamningi Reykjalundar og ríkisins segir:

Fari fram endurmat á launa- og verðlagsforsendum fjárveitinga til sambærilegra ríkisstofnana innan ársins skal endurskoða framlag til verksala með sama hætti.

Samningsbrot

Að okkar mati er það því brot á samningi þessum að Reykjalundur njóti ekki sömu launahækkunar og starfsmenn annarra ríkisstofnana á heilbrigðissviði. Við teljum það óásættanlegt að starfsmenn Reykjalundar dragist aftur úr hvað launakjör varðar í beinum aðgerðum ríkisstjórnarinnar. Líkt og aðrar heilbrigðisstofnanir er Reykjalundur mannaður af konum í meirihluta. Starfsmenn á Reykjalundi hafa tekið á sig kjaraskerðingar síðustu misseri og því er það réttlætismál að Reykjalundur fái einnig fjármagn skv. jafnlaunaátaki ríkisstjórnarinnar til að jafna hlut sinna starfsmanna í gegnum stofnanasamning.

Fjármálaráðherra og velferðarráðherra hafa borist erindi, bæði frá forstjóra Reykjalundar og fulltrúum stéttarfélaga í BHM, til þess að knýja á um þetta mál en án árangurs. Því biðlum við til þín að taka málið upp og leiða það til lykta. Við bendum á að miðlægur samningur BHM rennur út í lok janúar og því mikilvægt að þessi leiðrétting verði komin til framkvæmda fyrir þann tíma svo starfsmenn Reykjalundar gangi til þeirra samninga á jafnréttisgrundvelli.




Skoðun

Sjá meira


×