Skoðun

Hvernig kemst ég heim?

Einar Guðmundsson skrifar
Nú í jólamánuðinum eru margir sem gera sér glaðan dag, hitta vini og kunningja, fara út að borða eða gera sér dagamun með öðrum hætti. Oft fylgir að lyfta glösum í góðra vina hópi.

Þegar heim skal halda getur verið freistandi að fara bara á bílnum. Þetta voru bara 1-2 glös eða bjórar, eða mesta lagi 3-5. Eða hvað? Er ekki örugglega í lagi að aka eftir svo litla áfengisneyslu?

Lögin eru skýr

Umferðarlögin eru skýr hvað þetta varðar. Ekki má aka eftir að hafa neytt áfengis eða vímuefna. Þó refsiraminn sé miðaður við 0,5 prómill eins og er, þá er það lögbrot engu að síður að aka með 0,3 prómill í blóði. Ekki er ólíklegt að þegar ný umferðarlög taka gildi verði þessi mörk 0,2 prómill. Það er nefnilega meira vitað í dag um áhrif áfengis á akstur en var um miðja síðustu öld þegar 0,5 prómillmörkin voru sett. Þá er akstur undir áhrifum fíkniefna alltaf bannaður.

Óásættanlegt

Það er óásættanlegt að aka undir áhrifum áfengis og vímuefna og því er mikilvægt að hafa í huga áður en menn gera sér glaðan dag að gera ráðstafanir til að komast heim aftur án þess að aka hafi þeir neytt áfengis. Fá einhvern annan sem ekki er undir áhrifum til að taka bílinn, taka leigubíl eða finna aðrar leiðir til að komast heim. Eitt af því sem gerist við neyslu áfengra drykkja er að dómgreindin minnkar og því verður erfiðara fyrir okkur að meta hvort við erum hæf til að aka heim að loknum gleðskapnum eða ekki. Við þær aðstæður er best að bíllinn eða bíllyklarnir séu ekki nálægt til að freista síður til aksturs.

Yfir 70 teknir ölvaðir í hverjum mánuði

Milli 8-900 ökumenn gerast brotlegir árlega vegna ölvunaraksturs eða yfir 70 manns í mánuði. Sem betur fer er að verða viðhorfsbreyting til batnaðar því árið 2007 voru tæplega 110 manns brotlegir á mánuði. Þetta gerir um 34% minnkun. En þó er langt í land enn að koma þessu í lag, því þetta eru tölur lögreglu og þá vantar alveg þá sem lögreglan nær ekki til.

Áhyggjur í dag eru ekki síður vegna þeirra sem aka undir áhrifum vímuefna en þeim sem lögreglan hefur stöðvað hefur fjölgað ár frá ári frá því að vera 344 árið 2007 og upp í 702 árið 2012 eða um 104 %.

Við sem notum umferðina daglega til að komast milli staða eigum rétt á því að komast heilu og höldnu milli staða án þess að eiga á hættu að ölvaður ökumaður eða undir áhrifum vímuefna skapi okkur hættu.

Um leið og Brautin – bindindisfélag ökumanna óskar öllum gleðilegra jóla hvetjum við ökumenn til að vera búnir að skipuleggja heimferðina í byrjun og tryggja að enginn aki ölvaður heim.




Skoðun

Sjá meira


×