Skoðun

Verðlaunaáætlun til sölu

Hanna Lára Steinsson skrifar
Mig langar til að tjá mig um viðskiptalífið á Íslandi í dag. Þannig er að ég starfaði lengi sem félagsráðgjafi fyrir Alzheimerssjúklinga og aðstandendur. Skrifaði bækur og greinar, kenndi mikið, stofnaði ráðgjafarstofuna Bjarmalund, fór um öll Norðurlönd margsinnis að kynna mér úrræði og stofna til sambanda.

Ég gerði einnig rannsókn um yngri Alzheimerssjúklinga á aldrinum 45-65 ára sem var kunngerð árið 2005. Sú rannsókn vakti mikla athygli á Norðurlöndum.

Árið 2008 var fyrsta keppni Innovit, nú Klak – Innovit, varðandi viðskiptaáætlanir og hreppti viðskiptaáætlun Bjarmalundar um skammtímaheimili fyrir Alzheimerssjúklinga þriðju verðlaun, en yfir 100 tóku þátt. Einnig hlaut áætlunin viðurkenningar frá þáverandi félagsmálaráðuneyti og iðnaðarráðuneyti. Starfsmenntaráð styrkti útgáfu kennslubókar um heilabilun sem ég notaði í kennslu til félagsliða sem starfa á hjúkrunarheimilum og í heimahúsum í samstarfi við Eflingu og Mími símenntun.

Á fundi Nýsköpunarsjóðs þann 5. nóvember var ljóst í svari Helgu Valfells að sjóðurinn styrkir ekki svo kölluð „None profit“-fyrirtæki, heldur aðeins fyrirtæki sem skila hagnaði.

Ég hef farið, ásamt Dögg Káradóttur, meðeiganda Bjarmalundar, á fund fjögurra borgarstjóra, þriggja ráðherra og allra sveitarstjóra á höfuðborgarsvæðinu. Við eyddum m.a. heilum degi með Silviu Svíadrottningu á ráðstefnu í Stokkhólmi, en móðir hennar lést úr Alzheimerssjúkdómi og hún kom á fót Silviahjemmet sem er í takt við hugmyndir okkar.

Svo kom hrunið og ég býð þessa viðskiptaáætlun til sölu, þeim sem nennir að standa í því að reyna að hanga í nágrannaþjóðunum sem eru 40 árum á undan okkur.




Skoðun

Sjá meira


×