Skoðun

Ákall frá krabbameinssjúklingum

Á hverju ári hverfa læknar til útlanda að loknu læknanámi. Þar leggja þeir stund á framhaldsnám og flestir ílengjast áfram erlendis. Samt eru einstaka læknar sem vilja vinna hér á landi undir því mikla álagi sem fylgir vinnu á t.d. Landspítalanum. Einn af þessum læknum er kominn á aldur og reglugerðir segja að hann verði að hætta 31. maí 2013. Þessi læknir sinnir um 100 sjúklingum. Hann er ern og fullfrískur og vill vinna áfram ef hann væri beðinn um það. Vinnan á hug hans allan hvort sem það snýr að sjúklingunum sjálfum eða því fræðilega. Allir sjúklingarnir treysta honum fyrir heilsu sinni og lífi. Jákvæðni hans fyllir okkur af orku sem er nauðsynleg í erfiðum veikindum eins og krabbameini. Nú á hann að hætta. Enginn kemur í staðinn svo vitað sé. Enginn hefur rætt við okkur sjúklingana hans um hver taki við okkur. Við erum full af óöryggi og kvíða, því enginn talar við okkur um þær breytingar sem eru í vændum, og aðeins tvær vikur eftir af maí. Að sjálfsögðu viljum við hafa okkar lækni áfram. Eru ekki þarfir sjúklinganna meiri en reglugerðir á blaði? Burt séð frá öllum reglugerðum ættuð þið Björn Zoëga, forstjóri Landspítalans, og Vilhelmína Haraldsdóttir, yfirlæknir lyfjadeildar Landspítalans, að taka höndum saman og bjóða þessum lækni stöðu áfram. Öllum hans sjúklingum til blessunar.

 

Virðingafyllst, Þórey Björnsdóttir Ragnhildur Gísladóttir Agnes Snorradóttir Sigríður Önundardóttir Þórdís Björnsdóttir 




Skoðun

Sjá meira


×