Innlent

Ákærður fyrir 200.000 króna svik á bland.is

Valur Grettisson skrifar
Vefsíðan er vinsæl sölusíða fyrir notaða hluti.
Vefsíðan er vinsæl sölusíða fyrir notaða hluti.
Karlmaður fæddur árið 1989 hefur verið ákærður fyrir umsvifamikil fjársvik á vefsíðunni bland.is, sem áður hét Barnaland. Auglýsing birtist í Lögbirtingablaðinu í gær þar sem maðurinn var kvaddur til að koma fyrir dóm, hlýða á ákæru, halda uppi vörnum og sæta dómi.

Maðurinn er ákærður fyrir að hafa svikið rúmlega tvö hundruð þúsund krónur út úr fimm einstaklingum á vefsíðunni í febrúar á þessu ári. Svo virðist sem hann hafi auglýst vörur á síðunni en ekki staðið við viðskiptin. Meðal annars á hann að hafa svikið 25 þúsund krónur út úr konu sem hugðist kaupa af honum Kitchen aid hrærivél. Konan greiddi fyrir vöruna, en maðurinn skilaði aldrei hrærivélinni til hennar.

Maðurinn endurtók leikinn þegar hann seldi manneskju kraftgalla fyrir tólf þúsund krónur. Þá er hann ákærður fyrir að hafa svikið þrjá til viðbótar.

Sæki maðurinn ekki dómsþing, sem fram fer í lok október, má hann búast við því að verða handtekinn og færður fyrir dóm.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×