Skoðun

Þversögn Minjastofnunar Íslands

Sigurjón Baldur Hafsteinsson skrifar
Í byrjun mars síðastliðnum auglýsti Minjastofnun Íslands eftir umsóknum um styrki úr húsfriðunarsjóði fyrir árið 2013. Í auglýsingunni segir að Minjastofnun úthluti styrkjum úr sjóðnum, en hann á að stuðla að „varðveislu og viðhaldi friðlýstra og friðaðra húsa og mannvirkja […] Sjóðnum ber einnig að stuðla að byggingarsögulegum rannsóknum, þar með talið skráningu húsa og mannvirkja, og miðla upplýsingum um þær.“



Í reglum um úthlutanir úr húsafriðunarsjóði segir að Minjastofnun Íslands úthluti „styrkjum úr húsafriðunarsjóði að fenginni umsögn húsafriðunarnefndar“ og að umsóknir séu metnar „með tilliti til varðveislugildis, t.d. vegna byggingarlistar, menningarsögu, umhverfis, upprunaleika og tæknilegs ástands ásamt gildi hennar fyrir varðveislu byggingararfleiðarinnar.“



Í reglunum er einnig ákvæði sem segir að Minjastofnun geti „ákveðið í samráði við húsafriðunarnefnd hverju sinni í auglýsingu hvort sjóðurinn leggi áherslu á ákveðna þætti minjaverndar í úthlutun ársins“. Í auglýsingunni eftir umsóknum um styrki úr sjóðnum fyrir árið 2013, var ekkert slíkt ákvæði að finna. Úthlutunarreglurnar eru einnig þannig að allir þeir sem vinna að rannsóknum sem falla undir byggingarsögu geta sótt um í sjóðinn, en reglurnar fara ekki í manngreinarálit.



Úthlutun úr húsafriðunarsjóði 2013 var tæplega 42 milljónir, en nokkrir umsækjendur, þar á meðal undirritaður, fengu ekki úthlutun. Þar sem rannsókn mín og samstarfsmanns slær viðkvæman tón í opinberri umfjöllun um íslenskan arkitektúr, lék mér forvitni á að vita með hvaða hætti núverandi húsafriðunarefnd hefði fjallað um umsóknina. En rannsóknin snýr m.a. að því að skoða sögulega útrýmingaráætlanir íslenskra stjórnvalda á íslenska torfbænum og er viðkvæmt menningarpólitískt mál í dag, þar sem viðsnúningur hefur orðið á opinberri afstöðu til slíkra húsakynna. Ég hafði því samband við einn nefndarmann húsafriðunarnefndar og sagði hann mér að nefndin hefði tekið vel í erindið og hefði mælt með því við forstöðumann Minjastofnunar að styrkur yrði veittur í verkefnið.



Á svig við úthlutunarreglur

Forstöðumaðurinn tók hins vegar ekki ráðleggingum húsafriðunarnefndar og veitti verkefninu ekki styrk. Ég hafði samband við forstöðumanninn og spurði hana að því hvort hún gæti sagt mér hvort það væri stefna Minjastofnunar að styrkja ekki slík verkefni. Hún svaraði mér um hæl með tölvupósti og sagði orðrétt að það sé „stefna minjastofnunar að styrkja ekki rannsóknarverkefni annarra ríkisstofnana“.



Þetta afdráttarlausa svar væri ekki í frásögur færandi, nema hvað að hér er farið á svig við úthlutunarreglur húsafriðunarsjóðs, sem er öllum opinn, og það sem meira er, Minjastofnun sjálf fer á svig við eigin stefnu, þar sem úthlutun Minjastofnunar úr sjóðnum fyrir 2013 fer að stærstum hluta (32 milljónir) til „rannsóknarverkefna annarra ríkisstofnana“ eins og forstöðumaðurinn orðaði það. En fimmtán milljónir fara til húsasafns Þjóðminjasafns Íslands og sautján milljónir til bókaverkefnisins Kirkjur Íslands sem nokkrir aðilar standa að, þar á meðal Þjóðminjasafn Íslands.



Forstöðumanni Minjastofnunar virðist ekki ljós sú þversögn sem felst í orðum hennar og það sem meira er, virðist ekki átta sig á þeim reglum sem eru í gildi eða hvert hlutverk húsafriðunarnefndar er varðandi úthlutanir úr sjóðnum, en nefndin leggur fram faglegt mat sitt á því hvaða umsóknir skuli styrkja. Á heimasíðu Minjastofnunar er ekki ljóst hvaða verkferlar taka gildi eftir umsögn húsafriðunarnefndar og hvernig forstöðumaður leggur mat á þær tillögur. Það er óskandi að Minjastofnun og forsætisráðuneytið taki þessi mál til alvarlegrar skoðunar, en það nær ekki nokkurri átt að þversagnakenndar geðþóttaákvarðanir forstöðumanns Minjastofnunar ráði alfarið niðurstöðum um úthlutanir úr opinberum sjóði.




Skoðun

Sjá meira


×