Gunnar Steinn Jónsson, leikmaður franska liðsins Nantes, hefur ekki enn fengið tækifæri með landsliðinu þó svo hann hafi staðið sig vel með félagsliði sínu. Miðjumaðurinn sagði í viðtali við Fréttablaðið í sumar að hann ætti skilið að fá tækifæri.
Aron Kristjánsson, landsliðsþjálfari í handknattleik, er viðmælandi vikunnar í Sportspjallinu og Guðjón Guðmundsson bar þessi ummæli undir landsliðsþjálfarann.
„Ég tel ekki svo vera að við séum að ganga fram hjá honum. Hann er aftur á móti leikmaður sem ég er að fylgjast með og gæti komið inn í framtíðinni. Hann er í erfiðri samkeppni því leikmennirnir í hans stöðu er gríðarlega sterkir,“ segir Aron en þeir sem fyrir eru á miðjunni eru þeir Snorri Steinn Guðjónsson, Aron Pálmarsson og Arnór Atlason.
„Það eru takmörk fyrir því hvað er hægt að vera með marga leikstjórnendur í hópnum. Þessir strákar sem eru þarna í dag eru einfaldlega betri en Gunnar. Þetta var kannski fulllangt gengið hjá honum.“
Sportspjallið fer í loftið á Vísi í hádeginu.
Kannski fulllangt gengið hjá Gunnari Steini
Henry Birgir Gunnarsson skrifar
