Skoðun

Ríkisstjórn sérhagsmuna

Margrét K. Sverrisdóttir skrifar

Fráfarandi ríkisstjórn var ríkisstjórn almannahagsmuna sem hafði jöfnuð og velferð að leiðarljósi og stuðlaði markvisst að hvoru tveggja, fyrst og fremst með traustri efnahagsstjórn sem náði stjórn á fjárlagahalla, verðbólgu og atvinnuleysi eftir allsherjarhrun efnahagslífsins.

Nú tekur við ný ríkisstjórn sérhagsmuna þegar flokkar taka völdin sem jafnan hafa verið kallaðir „helmingaskiptaflokkar“ vegna þess að þegar þeir hafa setið saman að völdum, hafa þeir gætt þess að skipta með sér völdum og sporslum. Kosningaloforðin og efndirnar Í kosningabaráttunni ítrekuðu Samfylking og Vinstri græn að það væri óábyrgt að lofa kjósendum miklum kjarabótum.

Kosningaloforð Framsóknar og Sjálfstæðisflokks voru hins vegar mjög kostnaðarsöm og gengu þannig í berhögg við baráttuna við minni verðbólgu og aukinn stöðugleika. Flokkarnir lögðu enga áherslu á lækkun skulda ríkissjóðs eða stöðugleika, gylliboðin voru allsráðandi.

Og nú hafa helmingaskiptaflokkarnir birt stjórnarsáttmála sinn. Þar sem leiðtogarnir eru ungir og ráðherraliðið nýtt, væntu margir þess að sjá jákvæð merki um kynslóðaskiptin og því vekur furðu hve gamaldags viðhorf birtast í plagginu.

Viðræðum við Evrópusambandið verður rift án þess að þjóðin fái að vita hvað er í boði og kjósa um það. Krónan, einn veikasti og smæsti gjaldmiðill sem um getur, á að halda sér. Umhverfismál eru sett niður og það er gælt við þjóðernishyggju með þjóðlegum áherslum og upphafningu ungmennafélaga í anda Framsóknarflokksins, sem vill þó ekki kannast við fortíð sína. Og málin verða sett í nefnd.

Skýrasti fyrirboðinn Skýrasti fyrirboði um það sem koma skal er að forgangsverkefni nýrrar ríkisstjórnar er að afnema veiðigjald á útgerðina, sem áætlað var að gæti skilað 40-50 milljörðum í þjóðarbúið. Þeim liggur mest á að hlífa stuðningsmönnum sínum, útgerðarmönnunum, við að greiða sanngjarnt gjald af nýtingu auðlindar okkar.

Þar er sannarlega staðinn vörður um sérhagsmuni en ekki almannahagsmuni. Mikilvægt er að fulltrúar nýrrar stjórnarandstöðu veiti ríkisstjórninni málefnalegt og uppbyggilegt aðhald og þó að sporin hræði varðandi samstarf Framsóknar og Sjálfstæðisflokks á umliðnum áratugum, bindur þjóðin sannarlega vonir við að nýrri ríkisstjórn takist vel til í verkum sínum.




Skoðun

Sjá meira


×