Innlent

Dularfulla málverkahvarfið

Jakob Bjarnar skrifar
Hér getur að líta hið mikla verk eftir Sigurð Örlygsson sem horfið er.
Hér getur að líta hið mikla verk eftir Sigurð Örlygsson sem horfið er. Jón Axel Egilsson
Ólafur Gunnarsson rithöfundur saknar sárlega stórs og ómetanlegs málverks úr sinni eigu en það hvarf með dularfullum hætti.

Ólafur auglýsir eftir stóru málverki eftir sjálfan Sigurð Örlygsson en þeir Ólafur hafa verið góðvinir í um fjögurra áratuga skeið. Missirinn er tilfinnanlegur.

Gaf vini sínum verkið

Forsagan er sú að á sýningu Sigurðar hjá Sævari Karli snemma árs 2005 stóð Ólafur og dáðist að þessu tiltekna verki og gerði þá Sigurður sér lítið fyrir og gaf vini sínum verkið -- af alkunnri höfðingslund. Því miður gat Ólafur ekki tekið við því þar og þá. En, hvenær uppgötvar Ólafur að verkið er horfið?

„Það er í raun og veru þegar ég ætlaði að fara að hengja það upp. Sigurður geymdi það fyrir mig. Stærðin er slík og stutt síðan ég komst í aðstöðu til að geta sett það upp á vegg. Þá kallaði ég eftir verkinu og þá finnst það hvergi,“ segir Ólafur.

Þetta er dularfullt málverkahvarf, ekki síst því talsverð fyrirferð er í verkinu. Það er 2 x 3 metrar.

„Þetta er ansi stórt, þó ekki sé þetta það stærsta sem hann hefur málað.“

Ekki er hægt að meta hversu verðmætt verk þetta er. „Ég þekki það nú ekki, veit ekki hvernig það er,“ segir Ólafur. „Markaðurinn er allur á haus eftir fjárhagsumbyltingu seinni ára. En, þetta hefur talsvert tilfinningagildi.“

Ólafur saknar verksins og heitir fundarlaunum.
Efni í reifara

Skaðinn er tilfinnanlegur. Sigurður flutti tvívegis á þessu tímabili og í seinna skiptið var hann við Rauðarárstíg. „Einhvern tíma í þessum flutningum gerist það að málverkið gufar upp eða það hefur á einhvern dularfullan hátt horfið úr geymslunni. Það er það sem við ekki kunnum skýringar á, hvað hefur skeð.“

Verkið ætti ekki að fara fram hjá nokkrum manni og Ólafur saknar þess. Og, í raun magnað að einhver hafi haft fyrir því að stela svo stóru verki, ef sú er raunin að umsvifamikill listaverkaþjófur hafi verið á ferð.

„Það má nú segja. Ef það er ekki búið að koma því fyrir þá náttúrlega blasir það einhvers staðar við. Ég vissi það að verk eftir Tryggva Ólafsson hvarf fyrir nokkrum árum. Það var auglýst eftir því og það fannst þar sem það hékk uppá verk á einhverju verkstæði."

Dularfulla málverkahvarfið?

"Já, það gæti orðið flott efni í einhverja skáldsögu á þessum reifaratímum,“ segir Ólafur Gunnarsson sem bindur við það vonir að verkið komi í leitirnar. Hann heitir fundarlaunum og biður þann sem eitthvað veit um verkið að skjóta á sig línu og netfangið er icecad@gmail.com.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×