Innlent

„Það tekur sinn tíma að fara í gegnum öll lögin“

Boði Logason skrifar
Gréta Salóme og Jónsi sigruðu undankeppnina hér heima í fyrra, og kepptu fyrir hönd Íslands í Eurovision.
Gréta Salóme og Jónsi sigruðu undankeppnina hér heima í fyrra, og kepptu fyrir hönd Íslands í Eurovision. Mynd/afp
„Það tekur sinn tíma að fara í gegnum öll lögin, það þarf að hlusta á þau oftar en einu sinni,“ segir Hera Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri söngvakeppni sjónvarpsins, sem fer fram eftir áramót.

Aldrei hafa fleiri lög borist inn í keppnina eins og í ár eða 297 lög, og nemur aukningin um 25 prósent á milli ára. Árið 2011 voru lögin rétt rúmlega 200. Reglum keppninnar var breytt í ár og nú máttu höfundar einungis senda inn tvö lög en ekki þrjú. „Það var algjört met í fyrra en þá voru um 240 lög,“ segir Hera.

Spurð hvers vegna þessi mikli áhugi sé á keppninni í ár segir hún að mikil áhersla hafi verið lögð á að ná til sem flesta. „Líka til þeirra sem eru á fullu í tónlist. Þau lög sem hafa unnið síðustu ár eru svolítið nýtískuleg, það getur vel verið að það spili inn í og kveiki kannski í einhverjum af yngri kynslóðinni,“ segir hún.

Í næstu viku mun valnefnd koma saman og byrja að hlusta á öll lögin. Ekki er gefið upp hverjir eiga sæti í valnefndinni, að sögn Heru, vegna smæðar landsins og þeirrar staðreyndar hversu lítill bransinn á Íslandi er. 

Sjö manns eiga sæti í nefndinni. Félag tónskálda og textahöfunda og Félag íslenskra hljómlistarmanna skipa tvö fulltrúa í nefndina. Ríkisútvarpið skipar einnig 2 fulltrúar og svo er einn óháður, sem RÚV velur.

Það er ekki enn búið að ákveða hvernig fyrirkomulagið verður þegar undankeppnin hefst eftir áramót.

„Það verða nokkur undanúrslit og svo lokakvöld. Það á eftir að koma í ljós hversu mörg lög verða í undanúrslitunum, það verður tilkynnt bráðlega,“ segir Hera að lokum.

Sigurvegarinn á lokakvöldinu hér heima keppir svo fyrir hönd Íslands í Eurovision í Danmörku í maí.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×