Innlent

Staðfest að ungviði makríls elst upp við strendur Íslands

Svavar Hávarðsson skrifar
Áhöfninn á Huginn VE 55 er hér að ganga frá síðustu makríltonnunum á síðustu vertíð.
Áhöfninn á Huginn VE 55 er hér að ganga frá síðustu makríltonnunum á síðustu vertíð. mynd/Óskar
Hafrannsóknastofnun hefur nú fyrstu vísbendingar um að ungviði makríls hafi klakist út við Ísland og alist nú hér upp. Þetta staðfestir það sem menn hafa talið um árabil, en ársgamall makríll fannst víða við Suðurland í vorralli stofnunarinnar í mars 2011 sem benti til vetursetu makrílseiða hér við land.

Þessar nýju niðurstöður byggja á aldursgreiningum á makrílungviði frá 2010 sem benda til þess að seiðin hafi klakist út á sama tíma og hrygning makríls átti sér stað innan íslensku lögsögunnar sama ár. Aðrar niðurstöður rannsókna benda einnig til þess að uppruni ungviðisins megi rekja til þessarar hrygningar.

Sveinn Sveinbjörnsson, fiskifræðingur hjá Hafrannsóknastofnun, segir að niðurstöðurnar, sem kynntar voru í gær, séu mjög áhugaverðar í ljósi þeirra breytinga sem eru að verða í lífríki sjávar með hlýnandi veðurfari. Hins vegar segir hann of snemmt að tala um að staðbundinn íslenskur makrílstofn sé að vaxa hér upp.

„Það er ekki hægt að tala um slíkt, enda er þetta ekki í slíku magni ennþá,“ segir Sveinn.

Flökkustofn makríls sem gengur nú inn í lögsöguna ár hvert er yngstur tveggja ára gamall makríll. Megnið af göngunni er eldri fiskur. „En þessi ungfiskur sem við erum að sjá hann verður rúmlega 20 sentímetra eftir vetursetuna, enda vex hann mjög hratt,“ segir Sveinn.

Spurður hvaða þýðingu niðurstöðurnar hafi til framtíðar litið segir Sveinn það ráðast af því hvort umhverfisaðstæður verða áfram hagstæðar tegundinni.

Sveinn dregur ekki úr því að hrygning makrílsins hafi komið mönnum nokkuð á óvart, en á sama tíma séu breytingarnar svo miklar að búast hefði mátt við þessari þróun, sem erfitt sé að sjá fyrir endann á. Þegar megi sjá miklar breytingar á útbreiðslu staðbundinna stofna við landið; ýsa og skötuselur haldi sig nú sífellt meira fyrir norðan land sem sé mikil breyting frá því sem áður var.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×