Innlent

Lyfjastofnun getur ekki sinnt eftirliti með lækningatækjum

Hrund Þórsdóttir skrifar
Stöðugildi sérfræðings sem sinnir málaflokknum verður lagt niður.
Stöðugildi sérfræðings sem sinnir málaflokknum verður lagt niður.
Lyfjastofnun getur ekki sinnt eftirliti með lækningatækjum, en það er meðal lögbundinna hlutverka hennar. Þetta kemur fram í tilkynningu á heimasíðu stofnunarinnar. Stöðugildi sérfræðings sem sinnir málaflokknum verður lagt niður.

Samkvæmt tilkynningu sem birt hefur verið á heimasíðu Lyfjastofnunar telur stofnunin sér skylt að koma á framfæri við almenning að henni sé ófært að sinna lögbundnu hlutverki sínu samkvæmt lögum um lækningatæki, því samkvæmt frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2014 verði engin fjárveiting veitt úr ríkissjóði til að standa straum af kostnaði við framkvæmd laga um lækningatæki. Málaflokkurinn var fluttur frá landlækni til lyfjastofnunar árið 2011 og fékk stofnunin þá 2,4 milljónir króna í fjárframlag til að sinna honum.

Stofnað var 20% stöðugildi sérfræðings til að sinna umsýslu með lækningatækjum auk þess sem stofnunin fékk 900 þúsund króna framlag til að hefja undirbúning að gerð gagnagrunns um lækningatæki. Í tilkynningunni kemur fram að undanfarin tvö ár hafi Lyfjastofnun hins vegar ekki fengið neitt fjármagn til að sinna málaflokknum og að ekki sé gert ráð fyrir því heldur í fjárlögum komandi árs.Í tilkynningunni kemur jafnframt fram að lögin um lækningatæki frá árinu 2011 hafi ekki reynst sem skyldi og meðal annars verið tilefni athugasemda frá Evrópusambandinu.

Því hafi á tveimur síðastliðnum þingum verið lagt fram á Alþingi breytingafrumvarp við lög um lækningatæki, sem hafði það að markmiði að gera framleiðendum og þeim sem ábyrgð bæru á markaðssetningu lækningatækja skylt að skrá þau hjá Lyfjastofnun, svo tryggt væri að lögbært yfirvald hefði vitneskju um hvaða lækningatæki væru hér á markaði. Frumvarpið fól einnig í sér nýja nálgun á fjármögnun málaflokksins með innheimtu sérstakra gjalda af innflutningi lækningatækja í stað beins framlags úr ríkissjóði.

Fram kemur að vegna deilna á Alþingi um fjármögnunarþátt málsins hafi málið dagað uppi í nefnd eftir aðra umræðu. Afleiðingin sé meðal annars að Lyfjastofnun hafi enn hvorki tök á að hafa yfirlit yfir hvaða lækningatæki séu hér á markaði né hafi stofnuninni verið tryggt fjármagn til að sinna umsýslu lækningatækja.

Þrátt fyrir þær skyldur sem lagðar eru á Lyfjastofnun er henni nú ekki lengur unnt að halda úti starfi sérfræðings og verður fyrrnefnt stöðugildi lagt niður frá og með fyrsta apríl næstkomandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×