Innlent

"Dálítið stressandi en mjög gaman"

Hrund Þórsdóttir skrifar
Bókin um ofurhvolpinn Kát hefur vakið athygli fyrir þær sakir að höfundurinn, Steinunn Jenný Karlsdóttir, er aðeins átta ára gömul. Hún segir heilmikið mál að skrifa heila bók meðfram skóla.

Og hvað varstu lengi að þessu?

„Kannski aðeins meira en sex mánuði,“ segir Steinunn.

Og var það full vinna, varstu allan daginn að skrifa?

„Já, næstum því.“

Sagan um Kát er ekki alveg úr lausu lofti gripin því hún byggir á ævintýrum krúttlega hvolpsins Káts, sem Steinunn á. Hún hefur haldið tvo upplestra úr bókinni.

Og hvernig finnst þér að standa fyrir framan fullt af fólki og lesa upp úr einhverju sem þú hefur skrifað sjálf?

„Það er dálítið stressandi en mjög gaman,“ segir hún.

Steinunn fékk aðstoð pabba síns, Karls Th. Birgissonar, við skrifin og hún kveðst mjög ánægð með útkomuna.

Hvernig datt þér þessi saga í hug?

„Þetta eru sko margir kaflir sem eru með mismunandi sögum. Nokkrar sögur eru skáldaðar og sumar ekki.“

Steinunni langar að skrifa fleiri bækur.

Um hvað myndir þú þá skrifa?

„Kannski gamla hundinn minn, en ég held samt ekki.“

Þótt það geti verið stressandi að lesa upp fór Steinunn létt með að lesa fyrir okkur, eins og sjá má í meðfylgjandi myndskeiði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×