Viðskipti innlent

Arðurinn mælist í milljarðatugum

Svavar Hávarðsson skrifar
Bláa lónið er eitt þeirra fyrirtækja sem fékk styrk 2005. Önnur þekkt fyrirtæki voru Orf Líftækni, Dohop, Marorka, Marel og Mentor.
Bláa lónið er eitt þeirra fyrirtækja sem fékk styrk 2005. Önnur þekkt fyrirtæki voru Orf Líftækni, Dohop, Marorka, Marel og Mentor. Mynd/gva
Þau þrettán fyrirtæki sem fengu styrki úr Tækniþróunarsjóði árið 2005 höfðu endurgoldið ríkissjóði framlagið 20 til 40 falt árið 2012. Arðurinn af fjárfestingu ríkissjóðs mælist í tugum milljarða.

Þetta sýnir samantekt Samtaka iðnaðarins (SI) um verðmætasköpun og tekjuöflun ríkissjóðs af fyrir­tækjum sem hafa notið styrkja til nýsköpunar- og þróunarverkefna.



Að gefnu tilefni


Tilefni samantektarinnar er fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar fyrir árið 2014 sem nú er til afgreiðslu á Alþingi. Samkvæmt því lækkar framlag í Tækniþróunarsjóð um tæpar 600 milljónir króna til ársins 2016 frá því sem áður hafði verið boðað. Einnig er boðuð lækkun á endurgreiðsluhlutfalli vegna nýsköpunar- og þróunarverkefna úr 20% í 15%. Með fjáraukalögum ársins 2013 átti einnig að skera Tækniþróunarsjóð niður afturvirkt um 150 milljónir króna.

Gremja

Á nýafstöðnu Rannsóknaþingi Rannís var þessu, ásamt sambærilegum áformum um niðurskurð á Rannsóknasjóði mótmælt kröftuglega. Gremja vísindasamfélagsins í garð niðurskurðar stjórnvalda til tækni- og vísindasjóða braust fram á sama tíma og fundarmenn lofuðu stefnumörkun til næstu ára. Var sagt að hún væri í raun orðin tóm, af þeim sökum að útilokað sé að framfylgja henni vegna fjársveltis.

Eins og Fréttablaðið greindi frá sagði Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra, að framlög til rannsókna- og tæknisjóða hafi hækkað árið 2013 vegna fjárfestingaráætlunar fyrri ríkisstjórnar en Alþingi hafi metið stöðuna svo að ríkisreksturinn yrði í jafnvægi eftir hallarekstur síðustu ára. Þetta hafi brugðist og þvert á móti þurfi enn að glíma við að loka fjárlagagati. „Það gerir sér það enginn að leik, eða af misskilningi, að draga úr fjárveitingum til svo mikilvægra málaflokka,“ sagði Illugi.



Stefnuyfirlýsingin gleymd?


Samtök iðnaðarins benda á að í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar segir að hún leggi mikla áherslu á nýsköpun í öllum atvinnugreinum. Boðaðar breytingar á framlögum til vísinda- og tæknisjóða sé því í hrópandi mótsögn við þessa stefnu. Samtökin spyrja hvort einhverja skynsemi sé að finna í tillögum um niðurskurð og svara þeirri spurningu neitandi – ekki sé hún einungis í andstöðu við yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar heldur vanti í tillöguna heilbrigða skynsemi. Verið sé að skera niður bestu og arðbærustu leiðina til að auka verðmætasköpun og skatttekjur ríkissjóðs.



Freistandi tilboð


Davíð Lúðvíksson, forstöðumaður stefnumótunar og nýsköpunar hjá SI, segir að umræðan virðist vera að leiða til þess að stjórnarflokkarnir hafi horfið frá umræddum niðurskurði á sjóðunum í fjáraukalögum 2013, en eftir standa áform um niðurskurð á tímabilinu 2014-2016. Einnig sé komin fram tillaga frá meirihluta fjárlaganefndar um að hverfa frá lækkun á endurgreiðsluhlutfalli vegna rannsókna- og þróunarkostnaðar. „En hins vegar er komin fram tillaga frá meirihlutanum um að þak hámarkskostnaðar til útreiknings á frádrætti verði lækkað,“ segir Davíð.

Davíð segir það koma harðar niður á stærri nýsköpunarfyrirtækjum sem nýta heimildina til fulls og þá draga úr hvata þeirra til að stunda rannsókna- og þróunarstarf hér á landi. „Á sama tíma eru löndin allt í kringum okkur að bjóða framsæknustu fyrirtækjunum okkar margvíslega fyrirgreiðslu og hvata ef þau flytja starfsemi sína til þeirra. Bretland freistar margra í þessu sambandi og samkvæmt fjárlagafrumvarpinu í Noregi er verið að hækka umrædd þök þar í landi, en íslenska endurgreiðslukerfið er einmitt sambærilegt því norska.“



20% gjaldeyristekna


Í samantekt SI kemur fram að nú koma um 20% gjaldeyristekna þjóðarinnar frá fyrirtækjum í tækni- og hugverkagreinum. Árangurinn, sem byggist á öflugu rannsókna- og þróunarstarfi undanfarinna ára, komi líka fram í aukinni framleiðni í öðrum útflutningsgreinum, auk þess að leiða til hagræðingar í mennta- og heilbrigðiskerfinu og öðrum greinum á heimamarkaði.

Þessu til áherslu er tekið dæmi af þeim þrettán fyrirtækjum sem fengu styrki úr Tækniþróunarsjóði árið 2005 en þá jókst heildarvelta þeirra úr 20 milljörðum 2005 í 118 milljarða á árinu 2012. Starfsmannafjöldinn fór úr nær 500 í um 1.000.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×