Skoðun
Konráð Guðjónsson, starfsnemi ÞSSÍ í Úganda

Afrísk og íslensk neyð

Konráð Guðjónsson skrifar

Í mars síðastliðnum samþykkti Alþingi nær einróma þingsályktunartillögu um að auka útgjöld til þróunarsamvinnu á næstu árum og t.a.m. áttu þau að aukast um rúmar 600 milljónir króna á næsta ári. Nú eru þær áætlanir í algjöru uppnámi og áætlað er að framlög til þróunarmála verði enn og aftur skorin verulega niður, þrátt fyrir að stuðningur almennings við málaflokkinn sé mikill.

Þróunarsamvinna hefur fengið á sig ýmsa gagnrýni síðustu áratugi. Sem dæmi má nefna að of miklir fjármunir lendi í höndum þeirra sem ekki þurfa á þeim að halda, ýmis verkefni gegni litlum sem engum tilgangi og að þróunarsamvinna dragi úr hvata þiggjenda aðstoðar til að bjarga sér sjálfir.

Margt af þessari gagnrýni hefur átt rétt á sér og er skiljanleg, enda er framkvæmd þróunarsamvinnu ófullkomin og ekki einföld eins og svo margt annað. Í raun er gagnrýni og aðhald bráðnauðsynlegt fyrir starfsemi þar sem mannslíf eru í húfi á hverjum degi og sýslað er með skattfé, enda hefur verið brugðist við henni að ýmsu leyti. Í dag eru t.d. íbúar landa sem þiggja aðstoð hafðir mun meira í samráði við veitendur, sem eykur líkur á að verkefni komi að gagni.

Á Íslandi fer lítið fyrir slíkri uppbyggilegri og vel rökstuddri gagnrýni. Í raun er ekkert um slíkt. Gagnrýnin snýst yfirleitt um að Íslendingar eigi bágt og hafi því ekki efni á þróunarsamvinnu. Formaður fjárlaganefndar lét hafa eftir sér að „gjaldþrota maður getur ekki borgað fyrir aðra“ og að fyrrverandi ríkisstjórn hafi „sóað ríkisfé í gæluverkefni… og takið eftir, þróunarhjálp hjá öðrum ríkjum þegar Íslendingar sjálfir svelta.“ Nú síðast sagði fjármálaráðherra að til skoðunar sé að skera niður framlög til þróunarsamvinnu til að auka fjárframlög í heilbrigðiskerfinu.

Þrátt fyrir allt þá búa Íslendingar samt við einhver bestu lífskjör sem fyrirfinnast í heiminum. Til dæmis er landsframleiðsla á mann um 47 sinnum hærri á Íslandi heldur en í Malaví, sem Íslendingar hafa stutt lengi, og Ísland er í 13. sæti af 187 löndum á lífskjaravísitölu Sameinuðu þjóðanna. Á Íslandi fá allir ókeypis menntun, allir hafa ótakmarkaðan aðgang að hreinu vatni og ríkið niðurgreiðir góða heilbrigðisþjónustu að mestu. Í samstarfslöndum Íslendinga er ókeypis menntun mjög takmörkuð og léleg, margir hafa engan aðgang að hreinu vatni og þeir fáu sem hafa aðgang að góðri heilbrigðisþjónustu þurfa að borga fúlgur fjár fyrir.

Það er lítil reisn yfir því að eitt af ríkustu löndum heims rökstyðji niðurskurð til aðstoðar við þá fátækustu í heiminum með því að það sé svo fátækt sjálft. Þeir sem þekkja til aðstæðna í þróunarlöndum eru eflaust margir sammála um að í viðhorfi íslenskra ráðamanna, sem og annarra, birtist ákveðið vanþakklæti á þeim kostum sem felast í því að búa á Íslandi og vera Íslendingur.

Má þá biðja um að ef áhugi er fyrir því að skera niður framlög til þróunarsamvinnu, þvert á vilja landsmanna, að það byggist á öðru en að Íslendingar séu svo fátækir. Við höfum vel efni á því að leggja fjármuni í þróunarsamvinnu. Það væri því heiðarlegra að segjast einfaldlega ekki tíma því. Má þá einnig biðja um að við lærum að meta það sem við höfum, í stað þess að halda því fram að íslensk og afrísk neyð séu á einhvern hátt samanburðarhæf.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Skoðun

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.