Innlent

Arion banki vill boð Einars skriflegt

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Einar segist hafa sagt við bankann að hann hefði fengið frábær viðbrögð við hugmyndinni.
Einar segist hafa sagt við bankann að hann hefði fengið frábær viðbrögð við hugmyndinni.
Einar Kárason rithöfundur fékk símtal frá Arion banka vegna tilboðs sem hann gerði bankanum um mánaðarlegar greiðslur sem hann þarf að greiða.

Bankinn býður Einari að láta árlega endurgreiðslu (fimm krónur af hverjum þúsund) af verslun til tiltekinna aðila renna til Mæðrastyrksnefndar. Á móti bauð Einar að mánaðarleg greiðsla hans vegna lána, greiðslukorts og fleira yrði einnig látin renna til Mæðrastyrksnefndar.

„Hafni bankinn þessari fullkomlega sjálfsögðu tillögu er hann augljóslega kominn í alvarlega siðferðisklemmu, treystir sér ekki til að sýna það örlæti sem hann ætlast til af öðrum,“ sagði Einar á Facebook-síðu sinni í dag, og nú hefur bankinn haft samband.

„Ég sagði frá þessu hér á Facebook og lofaði að segja frá framhaldinu, og get nú sagt þau tíðindi að maður frá bankanum hafði samband, vildi að ég sendi þetta tilboð skriflega til sín, og ég gat ekki skilið okkar samtal á annan hátt en að þeir væru í alvöru að hugleiða þetta boð,“ skrifar Einar og segir spjallið hafa verið á jákvæðum nótum.

Hann segist hafa sagt við manninn að hann hefði fengið frábær viðbrögð við hugmyndinni, mörg hundruð „læk“ og deilingar, og að nokkrir fjölmiðlar hefðu hringt.

„Hann sagði þá reyndar: „Já það er alltaf vinsælt að sparka í bankann,“ en ég sagðist alls ekki hafa hugsað þetta þannig. Ekki frekar en að mér hafi fundist þeir sparka í mig með sínu tilboði, enda hefur samband mitt við Arionbanka (og öll nöfnin sem hann hét á undan) verið vinsamlegt og hnökralaust. Ég held það geti komið eitthvað jákvætt og spennandi út úr þessu,“ skrifar Einar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×