Innlent

Heimanámið á heima í skólanum

Svavar Hávarðsson skrifar
Yngstu börnin þurfa að glíma við of flókin verkefni á fyrstu árum skólagöngu sinnar. Þau eiga að ljúka skóladeginum í skólanum, en ekki heima að kvöldlagi.
Yngstu börnin þurfa að glíma við of flókin verkefni á fyrstu árum skólagöngu sinnar. Þau eiga að ljúka skóladeginum í skólanum, en ekki heima að kvöldlagi. Mynd/Stefán
Það verður að gera grunnskólanám markvissara og nýta skólatímann til að þjálfa börn í þeim grunnþáttum náms sem eru þeim mikilvægastir – lestri og stærðfræði. Allt sem til þarf er vilji ráðamanna og ekki síður skólafólks um að breyta skipulagi skóladagsins fyrstu ár skólagöngunnar. Nemendurnir eiga að vera miðpunktur skólastarfsins og það á að taka mið af þörfum þeirra. Á þessu er misbrestur í íslensku skólakerfi.

Þetta segir Hermundur Sigmundsson, prófessor í lífeðlislegri sálarfræði við Háskólann í Þrándheimi. Hann hefur um árabil unnið að rannsóknum á færniþróun og skipulagi skólastarfs og kynnt hugmyndir sínar sem hafa fengið góðan hljómgrunn, meðal annars í Noregi.

Eins og alþjóð veit voru niðurstöður úr PISA-rannsókn OECD fyrir árið 2012 kynntar á þriðjudag. Niðurstaðan er mikið áhyggjuefni fyrir íslenskt samfélag; 30% 15 ára pilta lesa sér ekki til gagns og staða krakkanna á landsbyggðinni er í frjálsu falli víðast hvar. Í heild versnar frammistaða íslenskra nemenda mikið þegar litið er aftur um áratug.

Hermundur Sigmundsson
Heimanámið í skólann

„Það er ekki sami tími til að fylgja börnum eftir heima eins og áður var. Það eru auk þess spennandi verkefni sem glepja börnin og krefjast tíma, og á ég þá við tölvuna og alla þá möguleika sem henni fylgja. Mér varð líka hugsað til kreppunnar þegar ég sá þessi gröf, og hún hefur sennilega kostað sitt varðandi námið,“ segir Hermundur.

Hermundur spyr hvort verið sé að nota réttar kennsluaðferðir, þær sem alþjóðlegar rannsóknir sannarlega sýna að virka betur en aðrar í lestrarkennslu.

„Svo er þetta líka spurning um þjálfunina. Við vitum að 3-5% barna hafa lífeðlisfræðilega ástæðu fyrir lestrarerfiðleikum. En ef á 30% hópsins lesa sér ekki til gagns á sama tíma, þá má fullyrða að 25 til 27% þeirra hafi ekki fengið nægilega þjálfun. Það er það sem við verðum að bæta og fjölmargir krakkar fá hana ekki heima hjá sér, af ýmsum ástæðum. Getum við haft skólakerfið þannig að við forgangsröðum með þeim hætti fyrstu 4-5 skólaárin, að allir nái tökum á lestri?“ spyr Hermundur og bætir við að þjálfunin eigi að fara fram á skólatíma undir handleiðslu kennara sem getur metið hvar skórinn kreppir hjá hverjum og einum nemanda – og hann efast ekki um að kennararnir valdi starfi sínu. Þeim sé hins vegar gert að dreifa kröftunum um of – og þar sé gallaðri námsskrá um að kenna.

„Þjálfunin á að vera í skólanum en ekki heima. Verkefnin eru allt of flókin og álagið of mikið á kennarann, þess vegna. Krakkarnir eiga að læra alls konar hluti mjög snemma í stað þess að leggja áherslu á það sem skiptir máli – að lesa, skrifa og reikna sem er mikilvægast þangað til þau verða 10 ára gömul. Þá eru þau tilbúin til að kynna sér allt hitt – enda ráða þau þá við lestur sem er grundvöllur alls annars náms.“



Fókusinn á börnin!


Hermundur segir það misskilning að málið sé flókið. „Það verður að taka á vandanum með sameiginlegum aðgerðum og frumkvæðið á að koma frá menntamálaráðherra. Þá má bæta við að lengri skóladagur er engin lausn, og það er lengra nám kennara ekki heldur. Við þurfum styttri skóladag og meiri fókus. Börn þurfa líka að fá að hreyfa sig – að fá útrás. Rannsóknir sýna svart á hvítu að hreyfing í byrjun skóladags skapar ró næstu fjóra tíma á eftir fyrir þá sem eru virkastir, svo dæmi sé tekið.“

Það er skoðun Hermundar að nemendurnir eigi að vera miðpunktur skólastarfsins og það á að taka mið af þörfum þeirra. Á þessu sé misbrestur í íslensku skólakerfi. „Við látum börnin sitja í á annan klukkutíma án þess að hreyfa sig. Fullorðið fólk getur þetta ekki hvað þá sex eða sjö ára gamalt barn. Það sama á við um opin rými. Vinnandi fólki hentar þetta illa sem kemur fram í veikindum og fleiru. Opin rými eru ekki góð fyrir börn sem eiga við vanda að stríða, t.d. varðandi einbeitingu og ofvirkni. Svo eru sífellt fleiri skólar byggðir án þess að taka tillit til þessa. Við verðum að hanna skólana, jafnt sem skólastarfið, með tilliti til þess sem hentar börnum, en ekki þeim fullorðnu eins og nú er. Við setjum fókus á börnin og unglinganna. Við getum ekki – og megum ekki hafa einhvern annan fókus en það.“



Skóli án aðgreiningar


Á Íslandi starfa grunnskólar eftir hugmyndafræðinni um skóla án aðgreiningar. Hugmyndafræðin á að búa nemendur með sérþarfir betur undir frekari menntun og þátttöku í samfélaginu, fremur en þeir séu eingöngu að umgangast aðra sem glíma sem við sömu vandamál.

„Það má skoða þessa stefnu og hvort hún sé að skila því sem að var stefnt. Það er erfitt að brjóta þetta upp vegna hagsmunatengsla. Margir foreldrar barna með sérþarfir biðja um að komast í sérskóla með sín börn, en hafa ekki möguleika á því. Því segi ég að við verðum að setja börnin og þarfir þeirra í forgang. Það er ekki erfitt að leysa þetta en það þarf vilja til,“ segir Hermundur að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×