Viðskipti innlent

Nauðungarsölum á íbúðarhúsnæði frestað fram að aðgerðum

Heimir Már Pétursson skrifar
Innanríkisráðherra vonar að frumvarp um frestun á nauðungarsölum á íbúðarhúsnæði verði samþykkt á Alþingi fyrir jól.
Innanríkisráðherra vonar að frumvarp um frestun á nauðungarsölum á íbúðarhúsnæði verði samþykkt á Alþingi fyrir jól. mynd/stefán
Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra mun á næstu dögum leggja fram frumvarp sem heimilar frestun á nauðungarsölum á íbúðarhúsnæði fram á mitt næsta ár. Ráðherra kynnti málið í ríkisstjórn í morgun.

„Það sem ég var að kynna er í samræmi við það sem við höfum nefnt núna undanfarna mánuði, sem er að samhliða þeim aðgerðum sem við kynntum um síðustu helgi til að fara í skuldamál heimilanna, viljum við gefa þeim skuldurum sem standa á erfiðum stað í sínum málum tækifæri til að fresta, óski þeir eftir,  nauðungarsölum á heimilum þeirra. Sá frestur getur gilt allt til 1. júlí á næsta ár,“ segir Hanna Birna.

En þá er reiknað með að boðaðar aðgerðir ríkisstjórnarinnar til lækkunar höfuðstóls verðtryggðra íbúðalána hafi tekið gildi.

„Ég er að vonast til að fá að mæla fyrir frumvarpinu á þinginu fyrir áramót og ég held að það geti náðst góð samstaða um að klára þetta fyrir jól. Þá myndi þetta gilda næstu sex mánuði.,“ segir innanríkisráðherra.

Jón Þór Ólafsson þingmaður Pírata hefur þrýst mjög á ráðherra á undanförnum vikum og mánuðum að beita sér fyrir lögum sem þessum.

Hefði ekki verið hægt að gera þetta fyrr?

„Við höfum allan tímann sagt, alveg frá því að þessi mál hafa verið til umræðu frá því síðast liðið haust, að þetta sé það sem við værum að skoða samhliða almennum aðgerðum í skuldamálum heimilanna. Þannig að það var löngu yfirlýst stefna af okkar hálfu að við vildum skoða málið í tengslum við það. Og nú liggur fyrir ákvörðun um að samhliða þeim áðgerðum fái einstaklingar tækifæri til að fara yfir stöðuna og meta hvort þeir ráða við verkefnið,  sem er að klára að greiða af húseignunum sínum eða hvort grípa þarf til nauðungarsölu,“ segir Hanna Birna Kristjánsdóttir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×