Skoðun

Fæðuöryggi og breytt veðurfar – kemur það okkur við?

Áslaug Helgadóttir skrifar
Áhrif fellibylsins Haiyan á Filippseyjum vekja ugg um afleiðingar loftslagsbreytinga á velferð mannkyns. Nýjasta skýrsla vísindanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (IPCC) frá því í september tók af allan vafa um að breytingarnar eru af mannavöldum. Svo virðist þó að þjóðir heims fljóti sofandi að feigðarósi og erum við Íslendingar þar engin undantekning. Helst virðast menn vakna upp við vondan draum þegar veðurhamfarir ganga yfir líkt og nú eða þegar fellibylurinn Sandy skall á austurströnd Bandaríkjanna í fyrra.

En hætturnar leynast víða. Vísindanefndin undirbýr nú skýrslu um áhrif loftslagsbreytinga á fæðuöryggi í heiminum sem væntanleg er í mars á næsta ári. Í drögum að skýrslunni kemur fram að reikna má með tveggja prósenta samdrætti í uppskeru á hverjum áratug á okkar helstu nytjajurtum eins og maís, hveiti og hrísgrjónum. Þetta eru slæmar fréttir einkum í ljósi þess að áður hefur verið áætlað að auka þurfi fæðuframboð um 14 prósent á hverjum áratug til þess að halda í við fólksfjölgun í heiminum. Væntanleg rýrnun í uppskeru er meiri og hraðari en í fyrri skýrslum nefndarinnar og það er því ekki verið að tala um hvað geti gerst á því fjarlæga ári 2100 heldur eftir 20 til 30 ár.

Á Íslandi gleðjast margir yfir hlýnandi árferði og mun landbúnaður hér, eins og víðar á norðurslóð, vissulega að einhverju leyti njóta góðs af. Hér verður ef til vill hægt að rækta nýjar tegundir nytjajurta sem áður hefur reynst erfitt eða jafnvel ómögulegt, til dæmis korntegundir eins og bygg, hafra og hveiti. Nú sér íslensk landbúnaðarframleiðsla okkur fyrir um helmingi af öllum þeim hitaeiningum sem við þurfum okkur til lífsviðurværis. Með hlýnandi veðurfari gæti þetta orðið meira. Það er gott og að því ber að stefna.

Hefjumst handa núna

Í áðurnefndum skýrsludrögum IPCC er vissulega getið um jákvæð áhrif loftslagsbreytinga á norðurslóð en neikvæð áhrif eru því miður miklu algengari. Breytt loftslag mun setja ræktun nytjajurta skorður og sveiflur í uppskeru milli ára munu aukast og það ekki síður hér en annars staðar. Á norðurslóðum er fyrirsjáanlegt að breytingar verði á útbreiðslu skordýra og plöntusjúkdómar verða vaxandi vandamál, nokkuð sem íslenskir bændur eru óvanir að eiga við. Þessar breytingar munu óhjákvæmilega leiða til verðhækkana og næsta öruggt er að fátækar þjóðir verða verr úti en við sem búum við mikla velmegun á Vesturlöndum. Hjá okkur er fæðuöryggi ekki á dagskrá, þvert á móti. Víða í löndum Evrópusambandsins hefur markvisst verið dregið úr uppskeru á undanförnum árum og framleiðslugeta landsins hefur langt í frá verið fullnýtt. En við skulum ekki gleyma því að núna er hátt í milljarður manna vannærður og stór hluti þess hóps er börn.

En enginn er eyland, allra síst Ísland þegar kemur að fæðuöryggi. Þjóðir heims eru tengdar saman í flókinn fæðuvef og landbúnaðarvörur flæða um heiminn þveran og endilangan. Það kemur okkur því við hvað gerist í fjarlægum heimshornum í náinni framtíð. Það er ekki of seint að leita allra leiða til þess að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og hamla þannig gegn enn frekari loftslagsbreytingum. Ef við grípum til aðgerða nú munu afkomendur okkar njóta þess á síðari hluta þessarar aldar. Stjórnvöld og almenningur á Íslandi verða að leggja sitt af mörkum til þess að þetta markmið náist. Á sama tíma er mikilvægt að bregðast við með auknum rannsóknum til að milda þau áhrif sem loftslagsbreytingar munu án efa hafa á fæðuframleiðslu á komandi árum. Við þurfum að hefjast handa ekki seinna en núna.




Skoðun

Sjá meira


×