Innlent

Árni Páll: Ekki framganga sem sæmir forsætisráðherra í lýðræðisríki

Höskuldur Kári Schram skrifar
Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar
Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar
Árni Páll Árnason formaður Samfylkingarinnar furðar sig á yfirlýsingu Sigmundar Davíð Gunnlaugssonar forsætisráðherra um að stjórnarandstaðan muni ekki hika við að ljúga til að gagnrýna skuldatillögur ríkisstjórnarinnar.

Sigmundur Davíð skaut föstum skotum á stjórnarandstöðuna í ræðu á miðstjórnarfundi framsóknarmanna á Selfossi um helgina. Sigmundur sagði að stjórnarandstaðan væri ekki búin að sætta sig við kosningaósigurinn í vor og að flokkarnir muni ekki hika við að ljúga til að gagnrýna boðaðar skuldatillögur ríkisstjórnarinnar sem stendur til að kynna síðar í þessari viku.

Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, furðar sig á þessum yfirlýsingum. „Forsætisráðherra hefur frá því að hann tók við séð óvini í hverju horni. Mér finnst í sjálfu sér engin sérstök ástæða fyrir mig að taka það eitthvað sérstaklega til mín eða til okkar í Samfylkingunni. Maður hefur séð margt til forsætisráðherra á fyrri tíð en kannski ekki að menn reyni að þagga niður viðbrögð við tillögum sem eru ekki einu sinni komnar fram,“ segir Árni.

Hann segir að yfirlýsingar af þessu tagi séu ekki til þess fallnar að skapa málefnalega umræðu. „Þetta er auðvitað ekki framganga sem sæmir forsætisráðherra í lýðræðisríki. Enginn forsætisráðherra á Vesturlöndum gæti fengið að komast upp með svona talsmáta óáreittur,“ segir Árni.

Birgitta Jónsdóttir þingflokksformaður Pírata segir að það sé ekki vænleg leið til að afla skuldatillögunum fylgis að gera stjórnarandstöðunni upp skoðanir með þessum hætti.

Guðmundur Steingrímsson formaður Bjartrar framtíðar segir að málflutningur forsætisráðherra sé mjög undarlegur. „Við í Bjartri framtíð höfum verið mjög málefnaleg þegar kemur að þessum málum. Við studdum það að ríkisstjórnin fengi ráðrúm til að útfæra þessi kosningaloforð. Við höfum með málefnalegum og ígrunduðum hætti lýst yfir okkar efasemdum um að það sé hægt gera þetta og við munum bara halda áfram að vera málefnaleg í okkar málflutningi þegar kemur að skuldamálum heimilanna,“ segir Guðmundur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×