Viðskipti innlent

Íslendingar óðir í eftirlíkingar af Nike Free

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
Mikið af eftirlíkingum af Nike-skóm eru í umferð á Íslandi, en skórnir hafa notið mikilla vinsælda upp á síðkastið. Starfsmaður hjá Nike-umboðinu segir að ef verðið er of gott til að vera satt  sé varan að öllum líkindum ekki ekta.

Nike Free- íþróttaskórnir hafa verið áberandi tískubóla síðustu mánuði. Skórnir kosta í kringum 23 þúsund krónur en ódýrari gerðir hafa skotið upp kollinum hér og þar upp á síðkastið. Má þar nefna sölusíður á Facebook, eBay og kínverska vefsíðuna Ali Express sem Íslendingar versla við í sífellt auknum mæli. Þar er hægt að kaupa Nike skó á fimm þúsund krónur og er verðmunurinn því talsverður.

Magnús Björn Sigurðsson, sölufulltrúi hjá Nike á Íslandi, segir auðvelt að sjá hvort skórnir séu ekta eða ekki. Botninn er ekki jafn sveigjanlegur og á venjulegum Nike skóm, örflagan í skónum er laus, saumar eru lélegir og efnin byrja fljótt að hnökra. Þá eru umbúðirnar lélegar og skónum í mörgum tilfellum pakkað inn í plastpoka.

Hann segir fólk í mörgum tilfellum ekki gera sér grein fyrir að um falsaða vöru sé að ræða.

„Ef verðið er of gott til að vera satt, þá er varan að öllum líkindum ekki ekta. Það er líka rosalegur gæðamunur. Eftirlíkingarnar eru ekki hugsaðir til íþróttaiðkunar og slitna hratt," segir Magnús.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×