Viðskipti innlent

Skattgreiðendur greiða fyrir 82 af hverjum 100 seldum sætum

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Rúmlega 82 prósent tekna Sinfóníuhljómsveitar Íslands koma frá ríki og borg sem þýðir að hið opinbera greiðir fyrir 82 af hverjum 100 sætum á tónleikum hljómsveitarinnar. Miðaverð á tónleikum hlypi á tugum þúsunda króna ef ekki nyti við fjárstuðnings hins opinbera.

Sinfóníuhljómsveit Íslands er rekin af íslenska ríkinu, sem fer með 82 prósenta hlut og Reykjavíkurborg sem fer með 18 prósenta hlut.

Vegna erfiðrar stöðu ríkissjóðs hefur skapast nokkur umræða um stöðu Sinfóníuhljómsveitar Íslands, en hið opinbera, þ.e ríkissjóður og Reykjavíkurborg, leggja til samtals tæpan milljarð króna árlega til rekstrar hennar.

Reiðir sig á skattfé

Samkvæmt ársreikningi Sinfóníunnar fyrir árið 2012 námu heildartekjur hennar hennar 1 milljarði og 93 milljónum króna. Þar af námu framlög rekstraraðila, þ.e ríki og borgar, 901,2 milljónum króna. Miðasala og styrkir námu aðeins 191 milljón krónum samtals.

Þetta þýðir að 82,4 prósent af heildartekjum Sinfóníunnar á síðasta ári voru framlög ríkis og borgar og þar er mikill meirihluti framlög frá ríkissjóði. Það má því segja að miðinn á tónleikana með Sinfóníunni sé niðurgreiddur af skattgreiðendum um 82 prósent.

Til skýringar má því segja að 82 af hverjum 100 seldum miðum í Eldborgarsalnum á tónleikum Sinfóníunnar eru greiddir af skattgreiðendum.

Myndi ekki þrífast án fjárstuðnings hins opinbera

En myndi rekstur Sinfóníunnar þrífast án þessa fjárstuðnings? „Ég held að það sé alveg ljóst að svo væri ekki. Þetta er algjört grundvallaratriði fyrir reksturinn,“ segir Arna Kristín Einarsdóttir, framkvæmdastjóri Sinfóníunnar.

Miðaverð á tónleika Sinfóníunnar eru í nokkrum verðflokkum eftir sætum í Eldborgarsalnum. Ef menn vilja kaupa miða á Vínartónleika Sinfóníunnar sem verða í janúar næstkomandi er verðið á miðanum frá 3.300 krónum og upp í 7.600 kr. sem eru dýrustu sætin. Meðalverð er 5.360 kr.

Meðalverð á tónleika Sinfóníunnar væri 29.777 krónur ef ekki nyti við stuðnings skattgreiðenda, samkvæmt útreikningum fréttastofu. Engin önnur hljómsveit á Íslandi nýtur sambærilegs fjárstuðnings.

Heldurðu að það sé eftirspurn meðal almennings eftir því að greiða þrjátíu þúsund krónur fyrir miða á sinfóníutónleika? „Nei, miðaverð hefur áhrif á eftirspurnina og við höfum líka haft þá stefnu að hafa það ekki of hátt. Hins vegar er starfsemi hljómsveitarinnar á mjög breiðum grunni. Það eru ekki bara tónleikar því við erum með mjög öflugt fræðslustarf og spilum fyrir 15 - 17 þúsund skólabörn á hverju starfsári. Í fyrra fengum við samtals 70 þúsund gesti þannig að þetta er mjög breiður starfsgrundvöllur,“ segir Arna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×