Viðskipti innlent

Rannsókn sérstaks saksóknara gæti frestað skaðabótamáli Glitnis

Fanney Birna Jónsdóttir skrifar
Jón Ásgeir Jóhannesson, var forstjóri Baugs og einn stærsti hluthafi Glitnis þegar lánið var veitt.
Jón Ásgeir Jóhannesson, var forstjóri Baugs og einn stærsti hluthafi Glitnis þegar lánið var veitt.
Sérstakur saksóknari hefur hafið rannsókn á 15 milljarða króna víkjandi láni frá Glitni til Baugs í desember 2007. Mbl greinir frá þessu.

Skaðabótamáli slitastjórnar Glitnis gegn níu fyrrverandi stjórnendum og helstu eigendum bankans verður mögulega frestað en í morgun var fyrirtaka í Héraðsdómi Reykjavíkur vegna málsins. Þar tók dómari sér umhugsunarfrest til að ákveða hvort verða skuli við beiðni slitastjórnarinnar um frestun vegna rannsóknarinnar.

Um er að ræða sama lánið og slitastjórnin stefndi níumenningunum út af. Jón Ásgeir Jóhannesson var á þeim tíma forstjóri Baugs og einn stærsti hluthafi Glitnis.

Níumenningarnir eru Lárus Welding, Haukur Guðjónsson, Skarphéðinn Berg Steinarsson, Jón Sigurðsson, Katrín Pétursdóttir, Björn Ingi Sveinsson, Pétur Guðmundarson, Þorsteinn M. Jónsson og Jón Ásgeir Jóhannesson.

Á Mbl kemur fram að lögmenn stefndu hafi heyrt af því um liðna helgi að sérstakur saksóknari hefði hafið rannsókn á málinu.

Í skaðabótamálinu var tekist á um lánið þar sem slitastjórnin taldi lánveitinguna til Baugs hafa veirð ábótavant og að tjón Glitnis af henni sé um 6,5 milljarðar króna.

Lögmaður slitastjórnarinnar lagði í dag fram beiðni um frestun málsins vegna rannsóknarinnar en með bréfi frá sérstökum saksóknara frá 14. nóvember síðastliðnum var staðfest að málið væri til rannsóknar en hún væri á byrjunarstigi.

Fyrirhuguð aðalmeðferð í skaðabótamálinu var 4.-7. desember en dómarinn tók sér frest til ákvörðunar um frestunina.

Í fyrirtökunni í morgun var upplýst um það að enginn níumenninganna hafi verið kvaddur til yfirheyrslu hjá sérstökum saksóknara vegna rannsóknarinnar.

Dómari frestaði málinu í bili til næstu fyrirtöku þar sem ákvörðun dómara ætti að liggja fyrir um hvort frekari frestur verði veittur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×