Innlent

Sinfónían nauðsynleg fyrir andlega heilsu þjóðarinnar

Jakob Bjarnar skrifar
Arna Kristín segir Sinfóníuna eiga í erfiðri umræðu og ekki bætti úr skák þegar borgarstjórinn sneiddi að henni í umræðu um fjárhagsáætlun.
Arna Kristín segir Sinfóníuna eiga í erfiðri umræðu og ekki bætti úr skák þegar borgarstjórinn sneiddi að henni í umræðu um fjárhagsáætlun.
Jón Gnarr borgarstjóri sneiddi mjög að Sinfóníuhljómsveit Íslands þegar hann kynnti fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar í vikunni. Arna Kristín Einarsdóttir framkvæmdastjóri Sinfóníunnar segir hljómsveitina standa í erfiðri umræðu.

Jón Gnarr vék harkalega að Sinfóníunni í ráðhúsinu í vikunni, sagði að þau þar létu sem um einkarekstur væri að ræða en það væri nú óvart svo að rekstrarfé komi frá ríki og borg - sem greiði 18 prósent kostnaðar. Rekstrarkostnaðaður samkvæmt fjárlögum væri 930 milljónir, hlutur borgarinnar í því væri því 168 milljónir. Hljómsveitin hafi farið framúr áætlun um sem nemur 70 milljónum og ekki hægt að ætlast til þess að borgin bjargi því.

„Það ætti náttúrlega að vera öllum ljóst að þetta er hljómsveit sem rekin er af ríki og borg, sko,“ segir Arna Kristín hjá Sinfóníuhljómsveitinni um það hvort hljómsveitin formsái sína helstu bakhjarla. „Hins vegar verðum við að leita til stuðningsaðila til að afla tekna. En, við merkjum allt okkar útgefna kynningarefni með skjaldarmerkjum borgarinnar og ríkisins. Og erum stolt af því og teljum okkur mikilvæga fyrir Reykjavíkurborg. Og Reykjavíkurborg er okkur mikilvæg.“

Arna Kristín segist svo sem skilja að borgarstjóri sé ekki ánægður með hallarekstur á sveitinni. Og það þurfi að taka á því. En hluti vandans sé einmitt hærri rekstrarkostnaður sem er því samfara að hljómsveitin er nú komin í Hörpu, þar sem hún fær vonandi að dafna, en húsaleigukostnaður sé nú meiri en þegar hljómsveitin var í Háskólabíó. Og leiga renni til Reykjavíkurborgar sem á helming Hörpu.

Ekki hefur farið hjá því að Sinfóníuhljómsveit Íslands hafi fengið sinn skerf af ónotum nú á tímum niðurskurðar.

„Auðvitað getur þetta verið erfið umræða þegar þetta er sett upp sem Landspítalinn gegn Hörpu eða menningarstarfsemi. Það getur verið mjög erfitt að fara inn í slíka umræðu. En við höfum fundið fyrir miklum stuðningi áhorfenda. Þeim hefur fjölgað – við erum að sjá tvöföldun gesta á þessu 1. ári. Við erum að sjá mjög góðar áskriftartölur, fólk kemur hingað í stríðum straumum þannig að við getum ekki kvartað undan því að fólk hafi ekki tekið vel á móti okkur í þessu nýja húsi. En, við vitum að það sem við gerum skiptir máli; skiptir máli fyrir andlega heilsu þjóðarinnar og það skiptir máli fyrir menningarstig þjóðarinnar. En, eins og ég segi, það hefur verið ójafnvægi í rekstrinum við að flytja hingað inn, í þessar aðstæður í Hörpu, sem eru stórglæsilegar og hljómsveitin getur vaxið og dafnað í. En, þá er þetta vandi sem við glímum við; húsaleigukostnaður og annar kostnaður er hár og þetta dugar ekki einu sinni þó sértekjur hafi aukist mjög mikið.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×