Innlent

"Þrælkun er til staðar á Íslandi"

Hrund Þórsdóttir skrifar
Samkvæmt nýrri skýrslu Walk Free Foundation er Ísland meðal tíu landa í heiminum þar sem minnst er um þrælkun. Ástæðan er sögð mikil hagsæld, landfræðileg einangrun og sterkar stofnanir. Á Íslandi eru þó sögð til staðar dæmi um þrælkun, flest tengd kynlífsþrælkun en einnig í byggingariðnaði og ferðaþjónustu.

Margrét Steinarsdóttir, framkvæmdastjóri Mannréttindaskrifstofu Íslands, segist hafa hitt marga sem hún telur að hafi verið hagnýttir á ýmsan hátt, til dæmis fólk sem vinni myrkranna á milli fyrir lítil laun. „Þannig að ég held ég verði að taka undir að það sé til staðar þrælkun á Íslandi,“ segir hún.

Margrét segir margar útgáfur þrælkunar til staðar hér á landi og þekkir dæmi þar sem menn hafa gifst erlendum konum og selt þær í vændi. Þá segir hún til að fólk komi hingað til lands í gegnum millilið, sem greiði einhverjum hérlendis fyrir að ganga í hjúskap með viðkomandi, sem skuldi þá bæði milliliðnum og makanum hérlendis þegar hingað er komið. Og dæmin eru enn fleiri. „Það hafa til dæmis komið til mín ungmenni sem hafa verið hér á au pair leyfum en verið látin vinna jafnvel fullan vinnudag annars staðar og ekki fengið launin heldur hafa vinnuveitendurnir tekið þau.“

Samkvæmt skýrslunni þurfa Íslendingar meðal annars að bæta löggjöf sína þannig að hún nái yfir öll afbrigði nútímaþrælkunar, tryggja réttindi útlendinga á vinnumarkaði og efla möguleika til rannsókna á þrælkun.

Margrét segir mikilvægt að fólk geri sér grein fyrir hvað felist í mansali og tilkynni ef grunur leikur á að illa sé farið með fólk. „Það virðist vera að það sé alltaf einhver tilbúinn að notfæra sér aðra ef það er aðstöðumunur, en svo eru líka alltaf einhverjir sem vilja hjálpa. Það er nú það góða,“ segir Margrét.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×