Lífið

Mjólkurklám í fréttum

Lukka Pálsdóttir skrifar
Lukka Pálsdóttir.
Lukka Pálsdóttir.
Mjólkurklám í fréttum! Þessi fyrirsögn blasti við mér á facebooksíðu eiginmanns míns um helgina. Tilefnið var frétt (sem sjá má hér) sem hann hafði horft á í kvöldfréttatímanum. Þar var tilkynnt um undirritun samnings um 15 milljón króna styrk fræðslunefndar mjólkuriðnaðarins til Beinverndar.

Beinþynning algengt vandamál á Íslandi

Í fréttinni kom fram að á þriggja sekúndna fresti brotni bein af völdum beinþynningar á heimsvísu. Beinþynning er algengt vandamál á Íslandi og af hennar völdum brotna bein fjögurra Íslendinga á degi hverjum. Undirritun samningsins fór fram í fjósi og á meðan fréttaflutningnum stóð birtust okkur myndir af ýmsum mjólkurvörum eins og til dæmis súkkulaðimjólk og skál fullri af kexi.

Af fréttinni mátti draga þá ályktun að aukin mjólkurneysla væri lausnin á beinþynningarvanda þjóðarinnar. „Mjólkurklám" sagði eiginmaður minn þar sem hann er vel lesinn og hefur séð fjöldan allan af rannsóknum sem benda til þess að neysla á kúamjólkurafurðum tengist AUKINNI tíðni beinþynningar og beinbrota en ekki öfugt.

Sýruáhrifin valda úrkölkun

Helstu kenningar um skaðleg áhrif mjólkurneyslu á bein eru annars vegar að sýruáhrif mjólkurpróteina og sykurs (á sérstaklega við um sykurbættar mjólkurvörur) valdi úrkölkun og hins vegar hafi mikil kalkneysla þau áhrif að beinmyndandi frumur (osteoblasts) verði fyrir auknu álagi og skipti sér hraðar og því þrjóti þær fyrr á ævinni hjá þeim sem neyta mikilla mjólkurvara. Mjólkurneysla getur því styrkt bein til skamms tíma en verið orsakavaldur beinþynningar seinna á ævinni vegna hraðari öldrunar beinmyndandi fruma. Þetta er svipað því sem gerist hjá húðmyndandi frumum í mikilli sól – þær eldast hraðar. Fjöldi rannsókna bendir einnig til þess að mikil neysla kúamjólkurafurða tengist aukinni hættu á krabbameinum og öðrum langvinnum sjúkdómum.



Rannsóknir hafa bent til tengsla á milli mjólkurneyslu og krabbameina í æxlunarfærum s.s. brjósta-, legháls- og blöðruhálskrabbameina. Ein af ástæðunum er talin aukning IGF-1 (Insulin-like growth factor) við mjólkurneyslu en IGF-1 hefur hvetjandi áhrif á frumuskiptingar. Heilsusamleg áhrif kúamjólkurneyslu eru í öllu falli mjög umdeild og því hreinlega rangt eða ósiðlegt að ýta undir þá trú fólks að kúamjólk sé nauðsynleg tann- og beinheilsu Íslendinga.

En hvernig styrkjum við tennur og bein? D-vítamín og K-vítamín eru ekki síður mikilvæg en kalk til að styrkja tennur og bein. Þungaberandi æfingar og tog vöðvafestinganna á beinin styrkja þau hvað best.

Brokkólí og sólin betri kostir en mjólkin

Styrktarþjálfun, brokkólí og sólarljós væru því betri beinstyrking en öll mjólk í heiminum. Sjálf drekk ég mjólk. Mér finnst hún alveg nauðsynleg í kaffibollann minn á morgnana og ostur er reglulega borðaður á mínu heimili ásamt AB-mjólk og kotasælu. Ég vel þessar afurðir vegna nautnarinnar við að borða þær en ekki til að styrkja tennur og bein. Það er mikilvægt að kalla hlutina réttum nöfnum. Mjólk er vissulega GÓÐ – en EKKI endilega fyrir tennur og bein.




Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.