Lífið

"Ef ég geri ein mistök þá getur atvinnuferillinn endað strax"

Ellý Ármanns skrifar
Ívar Guðmundsson og Arnar Grant sem framleiða Hámark drykkinn gerðu á dögunum styrktarsamning við Margréti Gnarr afrekskonu með meiru. Við spurðum bæði Margréti og Ívar um samninginn og svo forvitnuðumust við líka um framtíð heimsmeistarans.

Margir vilja styðja við bakið á Margréti

„Við erum að styðja við tugi íþróttamanna með Hámark drykknum. Þetta er svona aðeins viðameiri samningur sem auðveldar Möggu að ferðast á þau mót sem eru framundan hjá henni. Þetta er styrktarsamningur en það er mjög dýrt að ferðast og taka þátt í stórum mótum eins og stendur til hjá henni á næsta ári. Við teljum það mikilvægt að hafa íslenskt vörumerki sem styrktaraðila hjá henni en fjölmargir erlendir aðilar hafa áhuga á að styðja við bakið á henni," segir Ívar.

Ívar og Arnar höfðu samband

„Eftir að ég vann Heimsmeistaramótið höfðu Ívar og Arnar samband við mig og sögðu mér að Hámark vildi endilega styrkja mig," segir Margrét Edda Gnarr sem stóð uppi sem sigurvegari í sínum hæðarflokki á heimsmeistaramóti IFBB í Bikini Fitness í september síðastliðnum.

„Þessi samningur gildir í eitt ár og Hámark mun styrkja mig á þau mót sem ég keppi á á næsta ári en á næsta ári fer ég að keppa á atvinnumannamótum. Þetta er rosalega góður samningur og ég gæti ekki verið ánægðari," segir hún.

Ætlar að fara varlega

Hvað er framundan hjá þér? „Framundan er mikil vinna að plana árið 2014 en ég vil fara varlega í allt því ef ég geri ein mistök þá getur atvinnuferillinn endað strax," svarar Margrét.

Stefnir á Arnold Classic í Ohio

„Ég er að hugsa mikið um eitt mót sem er haldið í lok febrúar á næsta ári en það er eina mótið á árinu sem ég þarf að fá svokallað boð á. Ég er að vinna í því að fá boð á þetta mót og það eru alveg góðar líkur á því að ég fái það þar sem ég er fyrsti atvinnumaður Íslendinga. Þetta mót heitir Arnold Classic og er haldið í Columbus Ohio. Mótið er bæði fyrir áhugamenn og sem áhugamaður þarf ég ekki sérstakt boð en sem atvinnumaður þarf ég það en allir sterkustu atvinnumenn heims keppa á þessu móti," útskýrir Margrét.

Afrekskonan Margrét.
Arnar Grant, Margrét Gnarr og Ívar Guðmundsson skrifuðu undir styrktarsamning til eins árs.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.