Innlent

Tillit tekið til minni tekna við endurnýjun þjónustusamnings RÚV

Heimir Már Pétursson skrifar
Illugi Gunnarsson segir framundan að endurnýja þjónustusamninginn við Ríkisútvarpið.
Illugi Gunnarsson segir framundan að endurnýja þjónustusamninginn við Ríkisútvarpið. mynd/vilhelm
Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra segir að við endurnýjun þjónustusamnings ríkisins við Ríkisútvarpið verði tekið tillit til þess að stofnunin hafi úr minna fé að spila. Ráðherra hefur ákveðið að afturkalla ákvörðun fyrri stjórnar um aukinn hlut Ríkisútvarpsins af útvarpsgjaldi en auka á móti heimildir þess á auglýsingamarkaði með því að lengja auglýsingatímann úr átta mínútum á klukkustund í tólf.

Fyrri ríkisstjórn hafði þrengt auglýsingaramma Ríkisútvarpsins úr 12 mínútum í átta mínútur á klukkustund og aukið framlög til stofnunarinnar af útvarpsgjaldinu.

„Það sem ég er að gera og segja er að það verður ekki aukning til Ríkisútvarpsins af skattfé. En um leið verður Ríkisútvarpinu gert betur kleift að mæta þessu tekjutapi. En þó er það þannig að þetta mun þýða enn meira aðhald fyrir Ríkisútvarpið en lagt var upp með í frumvarpinu sjálfu,“ segir Illugi.

Hann leggi ekki mat á hvort þetta kalli á uppsagnir hjá Ríkisútvarpinu. Stofnunin verði að ráða fram úr sínum málum eins og aðrar storfnanir svo sem eins og í mennta- og heilbrigðiskerfinu  verði fyrir hagræðingarkröfu.

„Aftur á móti er framundan að endurnýja þjónustusamning við Ríkisútvarpið. Þá sést þess væntanlega stað að menn hafa úr minni fjármunum að spila hjá þessari stofnun og þá verða menn auðvitað að taka tillit til þess,“ segir menntamálaráðherra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×