Sport

Miðar á Ísland - Kýpur að seljast upp

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Þórir Hákonarson, framkvæmdastjóri KSÍ, segist ekki muna eftir öðru eins.
Þórir Hákonarson, framkvæmdastjóri KSÍ, segist ekki muna eftir öðru eins.
Alls hafa rúmlega 8 þúsund miðar selst á landsleik Íslands gegn Kýpur í undankeppni HM í knattspyrnu karla. Leikurinn fer fram þann 11. október á Laugardalsvelli.

Þórir Hákonarson, framkvæmdastjóri Knattspyrnusambands Íslands, segist ekki muna eftir öðru eins, að næstum sé uppselt mánuði fyrir leik.

„Það fór gríðarlega mikið í dag,“ segir Þórir og hafa miðar selst vel bæði á netinu og utan þess. „Þetta er alveg ótrúleg sala. Ég held að þetta hafi bara aldrei verið svona.“

Þórir þorir ekki að spá til um það hvenær selst upp á leikinn en segir það hugsanlegt að það losni um einhverja miða á morgun. „Það eru frátekin sæti fyrir Kýpurmenn og við eigum enn eftir að fá staðfestingu frá þeim. Það gæti því verið að það færi eitthvað af þeim sætum í sölu á morgun.“

Leikurinn er síðasti heimaleikur Íslands í riðlakeppninni en liðið er í öðru sæti í sínum riðli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×