Innlent

Ungir jafnaðarmenn ósáttir með sína þingmenn

Jón Júlíus Karlsson skrifar
Þingflokkur Samfylkingarinnar.
Þingflokkur Samfylkingarinnar. Mynd/Samfylkingin
Ungir jafnaðarmenn skilja ekkert í því að Alþingi hafi samþykkt lög sem þeir telja að þingmenn viti að í framkvæmd munu stangast á við stjórnarskrá og rétt manna til friðhelgi einkalífs. Nýsamþykkt lög um Hagstofu Íslands leyfa viðamikla öflun stjórnvalda á persónuupplýsingum um alla viðskiptavini fjármálafyrirtækja og lánastofnana ríkisins.

Flestir þingmenn Samfylkingarinnar sátu hjá við afgreiðslu frumvarpsins. Ungir jafnaðarmenn telja ótvírætt að réttast hefði verið að greiða atkvæði gegn lögunum og eru verulega vonsviknir út í þá sem greiddu ekki atkvæði við afgreiðslu frumvarpisins. Þeir telja að ekki eigi að sitja hjá þegar mannréttindabrot eiga í hlut.

„Í frumvarpi að lögunum voru færð þau rök fyrir ráðstöfnunum að upplýsingasöfnunin væri nauðsynleg vegna aðgerða ríkisstjórnarinnar fyrir skuldug heimili. Ekki verður þó séð að lögin geti þjónað neinum slíkum tilgangi enda yrði skýrslugerð útfrá upplýsingunum aldrei lokið fyrr en á næsta ári, en forsætisráðherra segir boðaðar aðgerðir verða kynntar í nóvember. Tilgangurinn getur því ekki verið annar en að mæla árangur ríkisstjórnarinar. Slíkt getur ekki kallað á inngrip í friðhelgi einkalífs allra Íslendinga. Lögin voru keyrð í gegnum þingið þrátt fyrir að Persónuvernd hafi vakið athygli á því að rökstuðningur fyrir upplýsingaöfluninni hafi verið ófullnægjandi,“ segir í tilkynningu frá Ungum jafnaðarmönnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×