Innlent

Fannst lífshættulega slasaður á bílastæði

Hanna Rún Sverrisdóttir skrifar
Maðurinn fannst á bílastæði við Hrafnistu.
Maðurinn fannst á bílastæði við Hrafnistu.
Maður á níræðisaldri sem fannst liggjandi á bílastæði við Hrafnistu á þriðja tímanum í nótt er lífshættulega slasaður. Talið er að maðurinn hafi dottið niður af steinvegg og var fallið um einn metri.

Maðurinn er íbúi í þjónustuíbúð við Norðurbrún, rétt við Hrafnistu. Kona, sem er aðstandandi hans, er í áfalli vegna slyssins. Hún segir að hann sé brotinn í andliti, bæði kinnbeinin séu brotin, hann sé höfuðkúpubrotinn og nefbrotinn. Rifbein hafi brotnað og stungist  inn í lunga og þá sé maðurinn einnig bakbrotinn.  Þegar hann fannst hafi líkamshiti hans verið kominn niður í 33 gráður.

Konan segist líta málið mjög alvarlegum augum. Samkvæmt þeim upplýsingum sem aðstandendur hafi fengið hafi maðurinn fundist um klukkan þrjú í nótt. En í þjónustuíbúðunum eigi að vera búið að loka húsnæðinu klukkan 12 á miðnætti.

Það sé því sé ljóst að maðurinn, sem er heilabilaður, hafði verið einn á ráfi úti í nokkuð langan tíma.  Hún undrast að starfsfólkið hafi ekki tekið eftir því að maðurinn var ekki í herbergi sínu og greinilega ekki farið að litast um eftir honum.

Hún segir að aðstandendum hafi verið sagt að það hafi verið öryggismenn á Hrafnistu sem heyrðu gamla manninn hrópa á hjálp og komið honum til bjargar. Aðstandendur mannsins vilja að farið verði ofan í saumana á því hvernig þetta gat gerst og það verði að koma í veg fyrir að svona lagað geti gerst aftur.





Athugið. Í fyrri útgáfu af fréttinni stóð að maðurinn hafi verið íbúi á Hrafnistu. Hið rétta er að hann býr á Norðurbrún.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×