Viðskipti innlent

Ísland varla tifandi tímasprengja Evrópu

Þorgils Jónsson skrifar
Katrín Ólafsdóttir, lektor við HR, telur grein á vef CNN um annað hrun á Íslandi og áhrif þess á evrópskt efnahagslíf draga upp nokkuð dekkri mynd af ástandinu en tilefni sé til.
Katrín Ólafsdóttir, lektor við HR, telur grein á vef CNN um annað hrun á Íslandi og áhrif þess á evrópskt efnahagslíf draga upp nokkuð dekkri mynd af ástandinu en tilefni sé til.
Íslandi er líkt við tifandi tímasprengju fyrir efnahagslíf Evrópu í pistli sem birtist á viðskiptavef CNN í dag. Hagfræðilektor við Háskólann í Reykjavík segir þó að þar sé frekar djúpt í árina tekið.

Höfundur greinarinnar, Cyrus Sanati, segir að þrátt fyrir að margt gefi til kynna að íslenskt efnahagslíf sé að styrkjast, hafi fátt eitt unnist í stærri málum, til dæmis varðandi gjaldeyrishöftin. Einblínt hafi verið á að seinka sársaukanum frekar en að lækna sjúkdóminn og það eigi sér nokkra hliðstæðu víða á meginlandi Evrópu.

Katrín Ólafsdóttir, lektor við viðskiptafræðideild Háskólans í Reykjavík, segir þó að þarna sé dregin upp frekar dökk mynd af ástandinu hér á landi.

„Hann segir að við höfum náð litlum sem engum árangri og það er rangt. Hins vegar er það alveg rétt hjá honum að fjármagnshöftin eru okkar erfiðasta vandamál og það skiptir gríðarmiklu máli að okkur takist að leysa þau. Það er hins vegar engin formúla til þess og við erum að gera okkar besta í því, að ég held.“

Katrín segir enga formúlu vera til þess, en að hennar mati sé fólk sé að gera sitt besta í þeim málum.

„Þannig að staðan er ágæt eins og hún er og við erum á réttri leið, en auðvitað eru stór vandamál í spilunum og það skiptir máli hvernig við spilum úr því. Staðan er viðkvæm, það er engin spurning.“

Hvað varðar möguleg áhrif annars hruns á Íslandi á efnahagslíf Evrópu, telur Katrín einnig að þar sé hættan ofmetin.

„Ég sé ekki að það séu bein tengsl þarna á milli, því að við erum svo lítill hluti af heildinni. Það gæti haft óbein smitáhrif á væntingar, en beinu áhrifin held ég að verði afskaplega lítil og spurning hvort þetta muni hafa nokkur hræðsluáhrif út fyrir Ísland.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×