Lífið

Eva Dögg leggur lokahönd á tískubók

Ellý Ármanns skrifar
Eva Dögg Sigurgeirsdóttir viðskiptafræðingur hefur ekki setið auðum höndum í sumarfríinu því hún hefur verið upptekin við að leggja lokahönd á bók fyrir íslensku kvenþjóðina sem kemur út fyrir jólin.

Mynd/tiska.is
„Ég er í raun fædd tískugúrú en ég hef unnið í tískubransanum og tengst honum í yfir 20 ár. Ég lærði tísku- og markaðsfræði í Bandaríkjunum á sínum tíma og þá strax langaði mig að deila því sem ég lærði. Síðan hef ég unnið sem stílisti í gegnum tíðina, við fjölmiðla, haldið fyrirlestra, hjálpað ótal manns með fatastílinn og -skápinn og svo núna skrifa ég á tiska.is, sem hlýtur að vera draumadjobbið," segir Eva Dögg, spurð hvenær áhugi hennar á tísku vaknaði. 

Mynd/tiska.is
Hugmyndin kviknaði fyrir nokkrum árum

„Hugmyndin að bókinni kviknaði fyrir nokkrum árum og ég hef verið að sjóða hana saman lengi. Það er ansi oft leitað til mín með ráð og ég beðin um ýmis verkefni tengd tísku þannig að ég ákvað að deila þessu með þjóðinni núna. Það er Salka forlag sem gefur út bókina en það kom aldrei neitt annað til greina en að ganga í lið með þeim, enda gaman að sjá hvað Salka forlag hefur verið að gera flotta hluti í gegnum tíðina. Bókin er stútfull af góðum, einföldum og nauðsynlegum tískuráðum," segir Eva þegar talið berst að bókinni. 

Mynd/tiska.is
Bókin er fyrir alla

„Þetta er bókin sem konur þurfa að eiga því þarna eru einföld tímalaus ráð sem allir geta tileinkað sér. Þegar kemur að tískuráðum er kynslóðabil ekki til. Þessi ráð eru fyrir konur á öllum aldri. Ég gef tískupunkta og -ráð eins og ég hef verið að gera á tiska.is síðan ég opnaði síðuna í desember 2012. 

Eins og Oscar Wilde sagði forðum daga: „Vertu þú sjálfur - hinir eru fráteknir." Það er nákvæmlega það sem við þurfum að hafa í huga; að finna okkar eigin stíl. Ég ætla að hjálpa konum að finna hann." 

Áttu eitt ráð svona í lokin? „Já, núna eru árstíðaskipti um það bil að ganga í garð og allar verslanir að fyllast af haustvörum. Það er um að gera að fara yfir fataskápinn og skoða það sem við eigum og skilja sumarfötin frá vetrarfatnaðinum. Þá er ákveðin leið til að fara í gegnum fataskápinn. Þetta er mjög einfalt ráð, hvað eigum við til og hvað við getum nýtt. Það þarf ekki að kosta heilan helling að gera fataskápinn kláran fyrir veturinn," segir Eva.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.