Viðskipti innlent

Vilja draga úr kostnaði við opinbert eftirlit

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Áhugi er fyrir því innan ríkisstjórnarflokkanna að draga úr kostnaði við opinbert eftirlit og láta kostnaðinn samrýmast betur þörf. Þannig endurspegli stærð eftirlitsstofnana umfangi verkefna þeirra.

Vilji er til þess innan ríkisstjórnarflokkanna að spara með því að draga úr opinberu eftirliti. Stöð 2 byggir þetta á samtölum við stjórnarþingmenn. Sparnaður næst fram skerðingum útgjalda til þeirra stofnana sem fjármagnaðar eru af ríkinu. Þá eru aðrar stofnanir sem fjármagnaður eru með sérstökum gjöldum, eins og Neytendastofa, Talsmaður neytenda og Samkeppnisstofnun.

Fjármálaeftirlitið er ekki fjármagnað af ríkinu, enda greiðist kostnaðurinn af eftirlitsskyldum aðilum.

Finnski bankasérfræðingurinn Kaarlo Jännäri lagði til í skýrslu sem hann vann fyrir íslensk stjórnvöld eftir hrun að Seðlabankinn og FME yrðu sameinuð að nýju. Þetta fór aldrei á neitt flug hjá fyrri ríkisstjórn þótt Steingrímur J. Sigfússon, fyrrum fjármálaráðherra, hafi tekið vel í slíkar hugmyndir í viðtali í Klinkinu á Stöð 2.

FME er fjármagnað af eftirlitsskyldum aðilum, þ.e bönkum og tryggingafélögum. Hins vegar er talið að ná megi fram sparnaði með sameiningu við Seðlabankann.

Guðlaugur Þór Þórðarson er í hagræðingarhópi ríkisstjórnarinnar. „Þetta er eitt af því sem þarf að skoða," segir Guðlaugur Þór um sameiningu FME og Seðlabankans.

Myndi þetta leiða til sparnaðar? „Það þarf ekki fleiri skýrslur eða úttektir. Þær eru margar til. Það sem þarf að gera er að fara yfir þær og taka ákvörðun um hvort farið verði eftir leiðbeiningunum eða ekki. Þetta er bara eitt gott dæmi um það. Sömuleiðis þá ráðlagði sérfræðingurinn sem þú vísar til (Kaarlo Jännäri) að þessar stofnanir heyrðu undir sama ráðuneyti en því var breytt í tíð síðustu ríkisstjórnar."

Fjármálaeftirlitið var eflt gríðarlega eftir hrun en stofnunin var dvergvaxin með hliðsjón af stærð bankakerfisins fyrir bankaáfallið. Sameining við Seðlabanka myndi stytta boðleiðir. Fjárhagslegur sparnaður fælist væntanlega í fækkun starfsmanna en fyrir 1998 var FME deild í Seðlabankanum. Ríkissjóður ber ábyrgð á öllum skuldbindingum Seðlabankans samkvæmt lögum um hann.

Kostnaðurinn við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi á Íslandi þarf hins vegar að setja í samhengi. Á Íslandi voru afbrigðilegir tímar því allt fjármálakerfið hrundi, eitt stærsta tryggingafélag landsins fór á hausinn og önnur tryggingafélög voru leyst til kröfuhafa sinna. Hár kostnaður við opinbert eftirlit var í raun hörð viðbrögð stjórnvalda við mistökum fortíðar, en stofnanir eins og FME hafa það hlutverk eitt að gæta almannahagsmuna.

Ath. fréttin var uppfærð kl. 11:14 hinn 2. ágúst. Í fyrri útgáfu fréttarinnar vantaði tengil á lög um Seðlabankann og þá féll út texti.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×