Lífið

Ég ráðlegg krökkum að standa með sjálfum sér og segja nei hátt og skýrt

Ellý Ármanns skrifar
„En hann var orðinn graður svo að hann sussaði á mig. Sussaði og sussaði og ég þagnaði. Hlýðin og góð stelpa. Vissi líka uppá mig sökina af því að ég var búin að taka þátt sjálfviljug í sleiknum og keleríinu. Væri ekki ömurlegt af mér að skemma stemminguna? Myndi hann ekki missa álitið á mér og finnast ég hundleiðinleg?" skrifar María Hjálmtýsdóttir meðal annars á vefsíðuna Knúz en þar rifjar hún upp átakanlega reynslu sem hún upplifði á unglingsárum sínum í útileigu í Þórsmörk.

Við höfðum samband við Maríu spurðum hana um viðbrögð sem hún hefur fengið við pistlinum og hvaða ráð hún gefur fólki sem verður fyrir reynslu sem þessari að gera.

Hvernig viðbrögð hefur þú fengið eftir að þú birtir pistilinn? „Góð viðbrögð og gott að heyra að þetta fái fólk til að ræða þetta gráa svæði sem virðist svo hræðilega algengt. Ég varð líka hissa en samt ekki hvað margar konur virðast hafa lent í því sama. Auðvitað hafa líka dúkkað upp neikvæðar raddir en sem betur fer eru hinar mun háværari og fólk virðist tilbúið að taka þessa gríðarlega mikilvægu umræðu," svarar María.

Standa með sjálfum sér og segja nei

Hvað ráðleggur þú fólki að gera í þessum aðstæðum? „Hvenær er nauðgun nauðgun og hvenær erum við að vera meðvirk eða ekki? Þetta er flókið. Ég ráðlegg krökkum í sömu stöðu að standa með sjálfum sér og segja nei hátt og skýrt ef það efast eitthvað. Ef ekki er borin virðing fyrir því þá erum við að tala um nauðgun. Ekki þegja."

Talaðu við viðkomandi

„Auðvitað er þó alltaf fyrst og fremst mikilvægast að vera viss um að sú manneskja sem þú ert að kela við vilji meira og ef þú ert ekki viss, skynjar óvissu eða hik, stoppaðu og talaðu við viðkomandi til að vera viss þvi væntanlega viltu ekki nauðga," segir María.

María deildi reynslu sinni á vefsíðunni Knuz.is. Hún gaf okkur leyfi til að birta pistilinn.
Hér má lesa hluta úr pistli Maríu:

Ég var 16 að verða 17 þegar ég fór í Þórsmörk með vinkonum mínum um verslunarmannahelgi. Við tjölduðum í Húsadal og drukkum Malibu í ananasdjús, gin í greip og Southern Comfort. Svo ráfuðum við um hrikalega hressar og spjölluðum við alla þá sem á vegi okkar urðu. Svona eins og gert er við slíkar aðstæður. Voða gaman. 

Svo hitti ég strák sem ég þekkti úr skólanum. Hann er aðeins eldri en ég og þar af leiðandi þótti mér ansi svalt þegar hann byrjaði að reyna við mig. Ég man eftir að hafa tekið því vel og daðrað á móti. Fór meira að segja í sleik við hann. Svo færðum við okkur inn í tjald og héldum áfram að kela. Eins og oft vill verða við slíkar kringumstæður varð hann nokkuð æstur og káfaði á mér og ég var alls ekkert mótfallin því. Þegar hann svo byrjaði að klæða sig úr fötunum runnu hins vegar á mig tvær grímur og ég fann að mig langaði ekki í meira. Ég vildi stoppa svo ég sagði honum það. Ég sagðist ekki vilja meira. Ég sagði nei.

En hann var orðinn graður svo að hann sussaði á mig. Sussaði og sussaði og ég þagnaði. Hlýðin og góð stelpa. Vissi líka uppá mig sökina af því að ég var búin að taka þátt sjálfviljug í sleiknum og keleríinu. Væri ekki ömurlegt af mér að skemma stemminguna? Myndi hann ekki missa álitið á mér og finnast ég hundleiðinleg? 

Ég man að ég horfði upp í appelsínugulan tjaldhimininn á meðan hann lauk sér af. Ég kyssti hann ekki, ég brosti ekki og ég hreyfði mig ekki. Ég man eftir að hafa horft aftan á hann klæða sig og fara út úr tjaldinu og fundist ég vera skítug. Samt var ég aðallega reið og sár. Reið út í mig fyrir að hafa ekki staðið með sjálfri mér. Sár út í hann fyrir að hafa ekki stoppað þegar ég sagði nei. Fyrir að hafa tekið nei-ið mitt og sussað það í burtu. Fyrir að hafa ekki fundist ég skipta nægilegu máli til að taka mark á óskum mínum. 

Lesa pistil í heild sinni hér: Knuz.is.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.