Innlent

"Mér líður rosalega illa"

Hrund Þórsdóttir skrifar
Við ræddum við Hörpu Dís Birgisdóttur geislafræðing, seinnipartinn í dag. „Stjórnendur Landspítalans hafa stillt okkur upp við vegg og sett okkur afarkosti með að við þurfum að draga uppsagnir okkar til baka fyrir miðnætti í kvöld,“ segir Harpa.

Geislafræðingar fengu tölvupóst þessa efnis í gær og í hádeginu í dag sendu þeir frá sér yfirlýsingu. Þar kom fram að eftir viðræður við yfirmenn og vegna ummæla staðgengils forstjóra Landspítalans í fréttum Stöðvar 2 í gær, um að umsókn Katrínar Sigurðardóttur, formanns Félags geislafræðinga, fengi flýtimeðferð, hefðu geislafræðingar tekið ákvörðun um að draga uppsagnir sínar til baka. Með því vildu þeir sýna stjórnendum Landspítalans traust til að standa við orð sín og ráða formanninn aftur til starfa. Geislafræðingar höfðu áður sett endurráðningu Katrínar sem skilyrði fyrir því að snúa aftur til vinnu.

Þegar rætt var við Hörpu hafði hún ekki tekið ákvörðun um hvort hún myndi snúa aftur til starfa og sagði fleiri eiga erfitt með að gera upp hug sinn. „Mér líður rosalega illa. Ég er ósátt og mér finnst ég hafa skilið formanninn minn eftir einan einhvers staðar,“ segir Harpa.

Páll Matthíasson, staðgengill forstjóra Landspítalans, sagði í samtali við fréttastofu í dag að ástæðan fyrir því að geislafræðingum hefði verið settur frestur til miðnættis í kvöld, væri að hugsa þyrfti um öryggi sjúklinga. Ekki væri hægt að notast við bráðabirgðalausnir mikið lengur og spítalinn þyrfti að skipuleggja þjónustu sína ef geislafræðingar hygðust ekki snúa aftur til starfa. Hann sagði gæta misskilnings í yfirlýsingu geislafræðinga, því spítalinn hefði ekki gefið nein loforð um að ráða Katrínu aftur í vinnu en vonaðist til að fundur með henni í fyrramálið færi vel. Um klukkan fjögur í dag hafði rúmur helmingur þeirra geislafræðinga sem enn voru óákveðnir dregið uppsagnir sínar til baka og alls 32 af þeim 40 sem sögðu upp á röntgendeild. Páll sagði endurkomu geislafræðinga góð tíðindi fyrir spítalann og heilbrigðiskerfið og að markmiðið væri að allir aðilar málsins yrðu sáttir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×